Knattspyrna: KFA eina liðið sem vann um helgina

KFA var eitt austfirsku liðanna um helgina til að vinna sinn leik í Íslandsmótinu. FHL lauk keppni í Lengjudeild kvenna með tapi gegn Fram sem á móti tryggði sig upp um deild.

KFA vann í gær Kormák/Hvöt 1-3 á Blönduósi. Eiður Orri Ragnarsson kom KFA yfir á 38. mínútu en heimaliðið jafnaði strax í byrjun seinni hálfleiks.

Jacque Fokam Sandeu kom KFA yfir á 86. mínútu og Nenni Þór Guðmundsson skoraði þriðja markið í uppbótartíma. Nenni Þór er á sínu fyrsta tímabili í meistaraflokki og skoraði þarna sitt fyrsta deildarmark.

KFA er áfram í fimmta sæti deildarinnar og ekki á leið upp um deild. Liðið getur hins vegar orðið örlagavaldur í toppbaráttunni því það tekur á móti Völsungi í lokaumferðinni um næstu helgi. Sigur myndi tryggja Völsung upp um deild.

Kristófer Páll Viðarsson, fyrrum leikmaður Leiknis Fáskrúðsfirði, reyndist Hetti/Huginn óþægilegur þegar hann skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik fyrir botnlið Reynis Sandgerðis sem vann 1-3 á Egilsstöðum. Víðir Freyr Ívarsson skoraði mark Hattar/Hugins í uppbótartíma. Sigurinn dugði þó ekki til að bjarga Reyni frá falli.

Höttur/Huginn mætir Fjallabyggð fyrir norðan í lokaumferðinni. Fjallabyggð getur með sigri bjargað sér frá falli. Höttur/Huginn er í 7. sæti og gæti fallið um eitt í viðbót. Liðið hefur tapað fimm leikjum í röð.

Í Lengjudeild kvenna lauk FHL leik með 5-0 tapi gegn Fram í Reykjavík. FHL hafði löngu tryggt úrvalsdeildarsæti sitt en úrslitin réðu því að Fram fylgir með upp. Liðið varð jafnt Gróttu að stigum en með töluvert betra markahlutfall, óháð þessum úrslitum. Reyðfirðingurinn Pálmi Þór Jónasson er aðstoðarþjálfari Fram, en hann flutti sig suður eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari FHL áður.

Í A úrslitum annarrar deildar kvenna tapaði Einherji 3-1 fyrir ÍH í Hafnarfirði. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði markið á 42. mínútu og var Einherji yfir þar til kortér var eftir af leiknum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.