Knattspyrna: KFA gerði sitt en Höttur/Huginn ekki
Knattspyrnufélag Austfjarða leikur áfram í annarri deild knattspyrnu eftir að hafa orðið undir á markahlutfalli í baráttunni um að komast upp. KFA vann Sindra örugglega í sínum síðasta leik en það skipti ekki máli þar sem Höttur/Huginn var engin fyrirstaða fyrir keppinautana í ÍR.Lykilleikur KFA var þó um síðustu helgi þegar liðið tapaði fyrir ÍR á útivelli. Með þeim leik náði ÍR KFA að stigum og komst yfir á markahlutfalli, þar sem munaði fimm mörkum.
Það þýddi að fyrir lokaumferðina mátti ÍR ekki vinna Hött/Huginn á Egilsstöðum eða KFA varð að vinna Sindra, sem var fallinn, með sex mörkum meira á Reyðarfirði. Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta ekki, þrátt fyrir heiðarlega tilraun KFA.
Sagan hefði kannski orðið önnur ef KFA hefði nýtt þann fjölda færa sem liðið skapaði í fyrri hálfleik. Í honum skoraði liðið aðeins eitt mark, Danilo Milenkovic setti það á 19. mínútu.
ÍR komst hins vegar yfir strax á 8. mínútu og var í hálfleik 0-3 yfir. Miðað við það þurfti KFA að bæta við 8 mörkum og vinna 9-0.
KFA hélt áfram að reyna. Marteinn Már Sverrisson skoraði á 48. og 55. mínútu. En sóknarþungi KFA þýddi að svæði opnuðust fyrir Sindra í skyndisóknum og úr einni slíkri skoruðu Hornfirðingar á 68. mínútu. Á sama tíma var ÍR búið að skora sitt fjórða mark.
KFA hélt áfram. Milenkovic skoraði á 81. mínútu og Marteinn Már kláraði þrennuna með marki úr víti á þriðju mínútu uppbótartíma. En það dugði ekki, KFA hefði þurft að vinna 12-1 því ÍR skoraði sitt fimmta mark í uppbótartíma.
Liðin enduðu bæði með 41 stig en ÍR var með 27 mörk í plús meðan KFA var með 21. Höttur/Huginn varð í 6. sæti með 33 stig.
Einherji mætti aftur til leiks í annarri deild kvenna en sem kunnugt er fórst Violeta Mitul, leikmaður liðsins, af slysförum fyrir tveimur vikum. Einherji fór til Húsavíkur á föstudag og vann þar Völsung 0-1. Paula Lopez Ruiz skoraði markið á 89. mínútu.
Úrslit annarra leikja þýða að Einherji fer ekki upp um deild. Liðið á hins vegar eftir einn leik, á heimavelli gegn Álftanesi en þeim leik var frestað vegna andlátsins. Ekki er búið að staðfesta hvenær sá leikur verði spilaður.