Knattspyrna: KFA komið upp í annað sætið

Lið KFA er komið upp í annað sætið í annarri deild karla eftir fjóra sigurleiki í röð. Liðið vann Þrótt Vogum um helgina í miklum baráttuleik.

Staðan KFA var vænleg í byrjun seinni hálfleiks þegar liðið var 0-3 yfir. Tómas Atli Björgvinsson skoraði á 22. mínútu, Eiður Orri Ragnarsson á 45+3 og Marteinn Már Sverrisson á 52. mínútu.

Heimamenn áttu þó enn inn áhlaup, skoruðu á 73. og 84. mínútu. Leikurinn varð nokkuð harður í seinni hálfleik, átta gul spjöld fóru á loft. Þá eru ekki talin með þau tvö sem þjálfari Þróttar fékk í leikslok, sem þýða rautt spjald og leikbann.

Með sigrinum komst KFA upp fyrir Víking Ólafsvík, sem aðeins hefur hikstað í síðustu leikjum. Á sama tíma hefur KFA verið á mikilli siglingu, hefur unnið fjóra leiki í röð og er með 25 stig úr 12 leikjum.

Höttur/Huginn tók á móti Haukum á Egilsstöðum. Haukarnir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik, Sæbjörn Guðlaugsson skoraði á fyrstu mínútu uppbótartíma sem varð frekar langur því Haukar skoruðu sitt þriðja mark á sjöundu mínútu hans. Höttur/Huginn er í 8. sæti með 15 stig. Í spilaranum hér að neðan má sjá helstu atvik leiksins.

Spyrnir spilaði tvo leiki í 5. deild karla syðra um helgina. Það vann fyrst Þorlák 1-3 í leik þar sem Arnór Snær Magnússon skoraði í fyrri hálfleik en þeir Ármann Davíðsson og Hrafn Sigurðsson með stuttu millibili snemma í seinni hálfleik.

Í gær tapaði Spyrnir hins vegar 3-1 gegn Álafossi. Ármann skoraði eina markið er hann kom Spyrni yfir á tólftu mínútu.

Austfirsku kvennaliðin voru bæði í fríi um helgina.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar