Knattspyrna: KFA þarf hjálp frá Hetti/Huginn til að komast upp

Á brattann er að sækja fyrir Knattspyrnufélag Austfjarða í baráttu liðsins fyrir að komast upp í fyrstu deild karla í knattspyrnu að sumri eftir tap fyrir ÍR um helgina. KFA á enn möguleika en þarf líklega hjálp frá nágrönnum sínum í lokaumferðinni.

KFA fór vel af stað í Breiðholtinu því Esteban Selpa kom KFA yfir strax á 8. mínútu og sjö mínútum seinna var staðan orðin 0-2 því ÍR-ingar skoruðu sjálfsmark.

Þeir minnkuðu hins vegar muninn á 42. mínútu, jöfnuðu á 58. mínútu og komust yfir 62. mínútu. Arek Grzelak varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 76. mínútu og 4-2 sigur ÍR því staðreyndin.

Þessi úrslit setja möguleika KFA um að komast upp um deild í töluvert uppnám. Liðin deila öðru sætinu fyrir lokaumferðina, eru bæði með 38 stig. ÍR er hins vegar með 5 mörk umfram í markahlutfall sem þýðir að liðið má helst ekki vinna síðasta leikinn.

Sá leikur er gegn Hetti/Huginn á Egilsstöðum. Á sama tíma tekur KFA á móti Sindra en Hornafjarðarliðið er fallið um deild. KFA getur reyndar enn hjálpað sér sjálft með að vinna með sex mörkum meira en ÍR. Það þýðir að ef ÍR vinnur Hött/Huginn 1-0 þarf KFA að vinna Sindra 7-0.

Ósigur eftir fimm leiki án taps


Höttur/Huginn tapaði fyrir Dalvík/Reyni á föstudagskvöld en norðanliðið tryggði sér þar með sæti í fyrstu deildinni. Úrslitin í leik ÍR og KFA þýddu síðan að Dalvík/Reynir er öruggt um deildarmeistaratitilinn.

Dalvík/Reynir komst yfir strax á 5. mínútu en Dani Ndi jafnaði fyrir Hött/Huginn á 11. mínútu. Dalvík/Reynir skoraði síðan tvö mörk úr vítaspyrnum á 20. og 26. mínútu. Þar með var staðan orðin erfið fyrir Hött/Huginn.

Liðið fékk þó möguleika. Á 59. mínútu fékk einn úr Eyjafjarðarliðinu sitt annað gula spjald og um leið var varamarkvörðurinn rekinn af bekknum. Dalvíkurliðið skoraði síðan sjálfsmark tíu mínútum fyrir leikslok en kláraði svo leikinn í uppbótartíma. Höttur/Huginn hafði verið á góðu skriði fyrir leikinn og spilað fimm í röð án taps.

Hugurinn hjá Vopnfirðingum


Í fyrstu deild kvenna gerði FHL 3-3 jafntefli við Aftureldingu í síðasta leik sínum þetta sumarið. Gestirnir komust yfir á 3. mínútu en Natalie Cooke jafnaði á 45. mínútu. Hún kom FHL yfir á 49. mínútu en Mosfellsbæjarliðið jafnaði aftur á 61. mínútu. Björg Gunnlaugsdóttir kom FHL yfir á ný á 64. mínútu en aftur jafnaði Afturelding á 64. mínútu.

Það var nokkuð sérstakt að bæði lið spiluðu í FHL búningum þar sem Afturelding gleymdi búningum sínum fyrir sunnan og fékk lánað hjá FHL.

Enginn aðgangseyrir var á leikinn heldur gestir hvattir til að gefa í söfnum til styrktar fjölskyldu Violetu Mitul, leikmanns Einherja sem fórst í slysi á Vopnafirði fyrir viku. Um 250 þúsund krónur söfnuðust. Fleiri knattspyrnulið söfnuðu fé á þennan hátt um helgina. Hennar var minnst í upphafi leiks með mínútu þögn þar sem liðin stilltu sér upp með Einherjatreyju og bæði leikmenn og dómarar báru sorgarbönd.

Leik Einherja í annarri deildinni í gær var frestað. Úrslitin í deildinni eru enn óráðin og tæknilega á Einherji enn möguleika á að fylgja ÍR upp um deild. Nánara framhald á leikjum liðsins liggur ekki fyrir.

Myndir: Unnar Erlingsson og Jón Guðmundsson

fotbolti fhl umfa sept23 jong

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar