Knattspyrna: KFA vann sjö marka Austurlandsslag - Myndir

Frábærar tíu mínútur í byrjun seinni hálfleiks færðu KFA sigur á Hetti/Huginn þegar liðin mættust í nágrannaslag í sjöundu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Höttur/Huginn leiddi framan af. Martim Cardoso kom liðnu yfir á 23 mínútu en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á 39. mínútu. Á annarri mínútu uppbótartíma hálfleiksins slapp Martim í gegnum vörn KFA og kom Hetti/Huginn í 2-1.

KFA gerði út um leikinn með þremur mörkum fyrsta kortérið í seinni hálfleik. Marteinn Már Sverrisson skoraði á 49. mínútu, Eiður Orri á 51. og Marteinn aftur á 58. Bjarki Fannar Helgason minnkaði muninn á 64. mínútu en þar við sat.

Skemmdir á gervigrasi eftir blys


Á þriðja hundrað áhorfenda sátu í brekkunum við Fellavöll, þar af harðasti kjarni stuðningsmanna KFA við innri enda vallarins. Þeir kveiktu á blysum þegar lið þeirra skoraði og í leikslok. Hluta þeirra var hent inn á völlinn í lokin þannig að skemmdir eru í gervigrasi vallarins utan hliðarlínu og gangbraut.

Notkun blysa er bönnuð samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Íslands. Í þeim er einnig kveðið á um að lið beri sjálf ábyrgð á framkomu stuðningsmanna. Hægt er að beita sektum og jafnvel heimaleikjabanni séu brotin mjög gróf. Dæmi um slíkt er sekt sem Víkingur Reykjavík fékk fyrir hegðun stuðningsfólks á bikarúrslitaleik árið 2022, en þar var kveikt á blysum ásamt öðru.

Sá dómur byggði að miklu leyti á skýrslu eftirlitsmanns. Enginn eftirlitsmaður er skráður á leikskýrsluna frá í gærkvöldi. Í öðrum tilfellum hefur aganefnd sambandsins stuðst við önnur gögn, svo sem sérstakar skýrslur dómara.

Þá virtust stuðningsmenn KFA stugga við forráðamanni Hattar/Hugins er hann kom á svæðið til að róa þá. Samkvæmt reglum KSÍ ber heimalið ber ábyrgð á öryggi leikmanna, dómara og eftirlitsmanns. Í handbók leikja segir að gæslumenn skuli auðkenndir á áberandi hátt þannig ekki fari á milli mála hverjir sinni þeirra störfum. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var ekki sýnileg auðkennd gæsla á leiknum.

KFA færðist með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar en þetta var fyrstu leikur sjöundu umferðar.

IMG 5375
IMG 5433
IMG 5464
IMG 5477
IMG 5489
IMG 5495
IMG 5505
IMG 5519
IMG 5532
IMG 5555
IMG 5558
IMG 5594
IMG 5597
IMG 5667
IMG 5680
IMG 5691
IMG 5764
IMG 5799
PXL 20240613 190604498
PXL 20240613 194317833
PXL 20240613 211000649
Skemmdir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar