Knattspyrna: KFA vann sjö marka Austurlandsslag - Myndir
Frábærar tíu mínútur í byrjun seinni hálfleiks færðu KFA sigur á Hetti/Huginn þegar liðin mættust í nágrannaslag í sjöundu umferð annarrar deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi.Höttur/Huginn leiddi framan af. Martim Cardoso kom liðnu yfir á 23 mínútu en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á 39. mínútu. Á annarri mínútu uppbótartíma hálfleiksins slapp Martim í gegnum vörn KFA og kom Hetti/Huginn í 2-1.
KFA gerði út um leikinn með þremur mörkum fyrsta kortérið í seinni hálfleik. Marteinn Már Sverrisson skoraði á 49. mínútu, Eiður Orri á 51. og Marteinn aftur á 58. Bjarki Fannar Helgason minnkaði muninn á 64. mínútu en þar við sat.
Skemmdir á gervigrasi eftir blys
Á þriðja hundrað áhorfenda sátu í brekkunum við Fellavöll, þar af harðasti kjarni stuðningsmanna KFA við innri enda vallarins. Þeir kveiktu á blysum þegar lið þeirra skoraði og í leikslok. Hluta þeirra var hent inn á völlinn í lokin þannig að skemmdir eru í gervigrasi vallarins utan hliðarlínu og gangbraut.
Notkun blysa er bönnuð samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Íslands. Í þeim er einnig kveðið á um að lið beri sjálf ábyrgð á framkomu stuðningsmanna. Hægt er að beita sektum og jafnvel heimaleikjabanni séu brotin mjög gróf. Dæmi um slíkt er sekt sem Víkingur Reykjavík fékk fyrir hegðun stuðningsfólks á bikarúrslitaleik árið 2022, en þar var kveikt á blysum ásamt öðru.
Sá dómur byggði að miklu leyti á skýrslu eftirlitsmanns. Enginn eftirlitsmaður er skráður á leikskýrsluna frá í gærkvöldi. Í öðrum tilfellum hefur aganefnd sambandsins stuðst við önnur gögn, svo sem sérstakar skýrslur dómara.
Þá virtust stuðningsmenn KFA stugga við forráðamanni Hattar/Hugins er hann kom á svæðið til að róa þá. Samkvæmt reglum KSÍ ber heimalið ber ábyrgð á öryggi leikmanna, dómara og eftirlitsmanns. Í handbók leikja segir að gæslumenn skuli auðkenndir á áberandi hátt þannig ekki fari á milli mála hverjir sinni þeirra störfum. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var ekki sýnileg auðkennd gæsla á leiknum.
KFA færðist með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar en þetta var fyrstu leikur sjöundu umferðar.