Knattspyrna: KFA yfirspilaði Völsung í Lengjubikarnum
Knattspyrnufélag Austfjarða hefur unnið alla þrjá leiki sína það sem af er Lengjubikarnum nokkuð örugglega. Austfirsku kvennaliðin byrja ekki vel.KFA tók á móti Völsungi um helgina og vann 6-2. Marteinn Már Sverrisson skoraði strax á 6. mínútu, síðan Þór Sigurjónsson á 10. mínútu og loks Tómas Atli Björgvinsson á 16. mínútu.
Húsavíkurliðið minnkaði muninn fyrir leikhlé en í seinni hálfleik bættu Marteinn og Þór við mörkum auk þess sem Ólafur Bernharð Hallgrímsson skoraði sjötta markið. Völsungar skoruðu í uppbótartíma.
KFA er efst í C-riðli B-deildar karla með þrjá sigra úr þremur leikjum. Höttur/Huginn leikur í sama riðli og gerði um helgina sitt annað jafntefli í röð þegar liðið tók á móti Magna, 1-1. Heiðar Logi Jónsson skoraði fyrir Hött/Huginn um miðjan fyrri hálfleik en gestirnir svöruðu um miðjan seinni hálfleik.
Austfirsku kvennaliðin fara ekki vel af stað í keppninni. FHL tapaði 0-5 fyrir Aftureldingu um helgina. Einherji, sem spilar heimaleiki sína í Boganum á Akureyri, tapaði 1-4 fyrir KR í C-deild. Claudia Maria Marino skoraði mark Einherja þegar hún jafnaði skömmu fyrir leikhlé.
Úr leik Hattar/Hugins gegn Magna á laugardag. Mynd: Unnar Erlingsson