Knattspyrna: Kvennalið Einherja getur komist á toppinn

Leiknir er kominn í neðsta sæti fyrstu deildar karla í knattspyrnu eftir jafntefli við Selfoss á heimavelli um helgina og Höttur er að sogast inn í fallbaráttuna í annarri deildinni. Lið Einherja eru hins vegar í toppbaráttu í sínum deildum.


Leiknir átti heimaleik á bæjarhátíðinni frönskum dögum gegn Selfyssingum sem einnig sóttu stig austur viku fyrr gegn Huginn. Líkt og þá komust Selfyssingar yfir með marki strax í byrjun en Tadas Jocys jafnaði eftir hálftíma leik.

Leiknir er í neðsta sæti með 8 stig eftir tólf leiki, stigi frá Huginn og þremur stigum frá HK og Haukum. Liðið mætir Fjarðabyggð á Eskifirði á miðvikudag í fallbaráttu- og Austfjarðaslag.

Sigur Ægis á Sindra um helgina kostar Hött vandræði því liðið er nú aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Jordan Tyler skoraði eftir tíu mínútur og Högni Helgason eftir rúman hálftíma þegar Höttur komst í 0-2 gegn Njarðvík á laugardag.

Heimamenn minnkuðu muninn á 70. mínútu og jöfnuðu svo með hjólhestaspyrnu þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Höttur tekur á móti Vestra á miðvikudag.

Einherji er í þriðja sæti þriðju deildar en níu stigum á eftir Tindastóli og Víði svo langsótt er að liðið geri nokkra atlögu að því að fara upp um deild. Einherji vann KFR á Vopnafirði á laugardag 1-0 með marki Todors Hristovs á 65. mínútu.

Kvennaliðið á toppslag í kvöld þegar Hamrarnir koma í heimsókn. Með sigri getur það náð efsta sæti C riðils fyrstu deildar kvenna sem það berst um við Sindra og Hamrana. Liðið spilar síðan gegn Tindastóli á útivelli á fimmtudagskvöld.

Tindastóll sótti einmitt þrjú stig austur í síðustu viku þegar liðið lagði Hött/Fjarðabyggð/Leikni 3-5 á Egilsstöðum. Austfjarðaliðið varð illa fyrir barðinu á Jesse Shugg, kanadískum leikmanni sem spilaði sinn fyrsta leik með Tindastóli en hún skoraði þrennu. Austfjarðaliðið er í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins með fjögur stig.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.