Knattspyrna: Leiknir vann sinn fyrsta leik með að skella toppliðinu

Leiknir Fáskrúðsfirði náði á laugardag í sinn fyrsta sigur í fyrstu deild karla í knattspyrnu á þessu sumri þegar liðið vann Fylki, sem fyrir helgina var ósigrað í efsta sæti deildarinnar 3-1. Þjálfarinn segir breytingar sem gerðar hafi verið á liðinu að undanförnu vera að skila sér.


„Við spilum orðið 4-3-3 og ég hef verið að rótera aðeins innan liðs þannig það er kominn meira jafnvægi og kraftur í liðið.

Við ákváðum að halda áfram á sömu braut og gegn Fram, sem var okkar besti leikur í sumar og ég var ekki sáttur við að fá ekkert úr þeim leik.

Við lögðum upp með að spila á sama krafti og vissum að Fylkismenn væru mjög líklegir til vanmeta okkur og við nýttum það vel.“

Þetta segir Viðar Jónsson í kjölfar 3-1 sigurs Leiknis á Fylki á laugardag. Kristinn Justiniano Snjólfsson kom Leikni yfir úr vítaspyrnu eftir 11. mínútna leik og Javi Del Cueto Chocano kom liðnu í 2-0 eftir hálftíma. Fylkismenn minnkuðu muninn í uppbótartíma í fyrri hálfleik en eftir klukkutíma kom þriðja mark Leiknis og var þar Kristófer Páll Viðarsson á ferðinni.

Kristófer hóf tímabilið með Fylki og spilaði þar einn leik en hefur glímt við meiðsli og var að koma inn á öðru sinni með Leikni í sumar. Hann var búinn að vera á vellinum í á sjöundu mínútu þegar hann skoraði markið.

„Við pressuðum Fylki grimmt í byrjum þannig þeir lentu í vandræðum. Þeir unnu sig inn í leikinn og skoruðu rétt fyrir leikhlé en mínir menn voru andlega mjög sterkir og settu þriðja markið frekar en láta Fylki jafna.“

Vanir erfiðri stöðu

Úrslitin breyta því ekki að Leiknir er enn í neðsta sæti deildarinnar, með fjögur stig eftir sex leiki. Viðar viðurkennir að byrjunin sé ekki eins og vonast hafi verið eftir en Fáskrúðsfirðingar eru ekki óvanir að vera með bakið upp við vegg. Í fyrra komu fyrstu stig liðsins ekki fyrr en í sjöundu umferð.

„Þetta hefur verið kraftlaust og andlaust hjá okkur en ég færði til í liðinu og hitti á það. Eins og við spiluðum um helgina líður mér eins og við getum unnið öll lið deildarinnar. Ég hlakka til næsta leiks.

Það væri vitanlegra skemmtilegra að vera ekki á botninum en við erum vanir þessu, það er enginn farinn í fýlu og menn bara standa saman og hafa trú á verkefninu. Undirbúningstímabilið var ekki gott, hópurinn var lítill og úrslitin ekki góð en um helgina spiluðu allir sinn toppleik.“

Fleiri með fyrstu sigrana

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann einnig sinn fyrsta leik í annarri deild kvenna þegar liðið vann Hvíta riddarann á útivelli á föstudagskvöld. Carina Spengler og Margriet Samsom skoruðu mörkin. Liðið tapaði hins vegar 3-0 fyrir Aftureldingu/Fram í gær. Einherji tapaði 3-0 fyrir Gróttu á laugardag.

Eftir að hafa gert fjögur jafntefli í fyrstu fimm leikjunum vann Huginn loks leik í annarri deild karla. Það gerðist gegn Víði Garði og skoraði Gonzalo Leon eina mark leiks þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma.

Höttur tapaði 1-3 heima fyrir Tindastóli. Petar Mudresa kom Hetti yfir á tíundu mínútu en Ragnar Þór Gunnarsson skoraði þrennu fyrir Tindastól, jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoraði tvö mörk á síðustu tíu mínútunum.

Fjarðabyggð tekur á móti Aftureldingu á miðvikudag.

Í þriðju deild karla tapaði Einherji sínum fyrsta leik í sumar gegn Vængjum Júpiters á útivelli 3-1. Heimaliiðið var með leikinn í höndum sér eftir að hafa skorað tvö mörk snemma leiks. Sverrir Hrafn Friðriksson markaði muninn fyrir Einherja kortéri fyrir leikslok. Liðin deila toppsætinu með Kára.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.