Knattspyrna: Markalaust jafntefli kvennaliðanna í baráttuleik
Austfirsku kvennaliðin tvö sem spila í annarri deild, Einherji og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir gerðu markalaust jafntefli þegar þau mættust á Vopnafirði á föstudag. Báðir þjálfararnir hrósuðu leikmönnum sínum fyrir mikla baráttu.Fátt var um færi í leiknum, bestu færin voru langskot og efnilegar fyrirgjafir voru stöðvaðar af varnarmönnum. Á móti geta bæði lið hrósað sér af góðum varnarleik.
„Við höfum fengið fá færi á okkur og vörnin verið skipulögð en þegar þú lítur á stöðuna í deildinni sérðu að við höfum verið í vandræðum með að skora mörk,“ sagði Dilyan Kolev, þjálfari Einherja, eftir leikinn.
„Okkur vantar meiri yfirvegun þegar við nálgumst markið. Leikirnir okkar hafa verið jafnir og við bara tapað þeim með 1-2 mörkum. Við þurfum að bæta sóknina aðeins og ég held að við séum á réttri leið.“
Hann sagði liðið enn vera súpa seyðið af því hversu lengi tók að koma hópnum saman í vor. „Við spiluðum fyrstu sex leikina án þess að æfa. Þannig er þetta á stað eins og Vopnafirði þar sem stelpurnar koma heim yfir sumarið. Ég get samt ekki annað en hrósað þeim fyrir að leggja sig alltaf 100% fram.“
Síðasti leikur Söru
Sara Atladóttir, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis hafði svipuð orð um sitt lið. „Maður mætir alltaf í baráttuleiki gegn Einherja. Mér fannst við spila betur, koma okkur betur upp völlinn en síðasta sendingin eða skotið klikkuðu.“
Þetta var síðasti leikur Söru með liðið í sumar en hún fer fyrr í fæðingarorlof en áætlað var að læknisráði.
„Ég ætlaði að klára tímabilið en þessi staða kom upp í byrjun vikunnar. Það er erfitt að stíga frá litla barninu sem þú ert búin að móta. Ég hef lagt hjartað og sálina í þetta verkefni og stelpurnar hafa gert lagt sitt á móti. Það hefur verið heiður að vinna með þeim.“
Ekkert hefur verið staðfest um hver stýri liðinu í þeim þremur leikjum sem það á eftir. Sara sagðist ganga sátt frá borði eftir sumarið.
„Við höfum átt ágætis sumar. Það hefur verið erfitt að mæta okkur á heimavelli og þar höfum við unnið sterkustu liðin í deildinni. Við höfum barist og skapað okkur færi, án þess að fá mikið af færum á okkur, en ekki náð að klára leikina.“
Fjarðabyggð loksins upp úr fallsæti
Af austfirsku karlaliðunum er það helst að frétta að Fjarðabyggð komst í fyrsta sinn í sumar upp úr fallsæti annarrar deildar með 0-1 sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ. Zoran Vujovic skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu níu mínútum fyrir leikslok.
Höttur hefur dregist niður í fallbaráttuna og tapaði illa, 6-1, gegn Tindastóli. Þá tapaði Huginn 0-1 fyrir Víði. Með sigrinum stal liðið úr Garðinum þriðja sætinu af Seyðfirðingum.
Leiknir tapaði 4-1 fyrir toppliði Fylkis í fyrstu deild. Hilmar Freyr Bjartþórsson jafnaði í 1-1 um miðjan fyrri hálfleik. Í þriðju deild tapaði Einherji 0-1 fyrir Vængjum Júpiters.