Knattspyrna: Mikilvæg stig Austfjarðaliðanna

Austfjarðaliðin í fyrstu deild karla í knattspyrnu náðu öll í mikilvæg stig í fallbaráttunni um helgina. Höttur hefur sogast inn í fallbaráttu í annarri deild.


Leikur helgarinnar var á Seyðisfirði þar sem heimamenn í Huginn gerðu 3-3 jafntefli Seyðfirðinga. Ingimar Jóhannsson jafnaði fyrir Huginsmenn þegar þrjár mínútur voru búnar af uppbótartíma.

Selfyssingar komust í 0-2 eftir korter en Marko Nikolic minnkaði muninn fyrir Huginn. Diego Cabello, nýr leikmaður Hugins, jafnaði á 60. mínútu.

Gestirnir virtust ætla að stela sigrinum með marki á 85. mínútu en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu sem fyrr segir.

Leiknir Fáskrúðsfirði gerði markalaust jafntefli við HK á heimavelli. Almar Daði Jónsson fékk rautt spjald fyrir mótmæli og tveir aðrir leikmenn Leiknis áminningar í uppbótartíma þegar heimamenn vildu vítaspyrnu fyrir brot á Kristófer Páli Viðarssyni í uppbótartíma. Þeir fengu aðeins horn.

Þá fór Björgvin Stefán Pétursson, fyrirliði, meiddur af velli og útlit er fyrir að hann verði frá keppni í nokkrar vikur.

Fjarðabyggð vann sinn annan leik í röðinni þegar liðið skellti Haukum á útivelli 0-3. Jón Arnar Barðdal, Hákon Þór Sófusson og Fannar Árnason skoruðu mörkin.

Þótt öll stig séu dýrmæt fyrir liðin sem hafa verið í fallbaráttu í sumar hefðu Leiknir og Huginn viljað og þurft öll stigin þrjú út úr heimaleikjum við önnur lið í fallbaráttunni. Huginn hefur ekki unnið síðan í fyrstu umferðinni og fyrir leik helgarinnar aðeins skorað þrjú mörk í níu leikjum þar á undan.

Liðin eru í neðstu sætunum tveimur, Huginn með sex stig og Leiknir með sjö stig þegar deildin er hálfnuð. Fyrir ofan eru HK og Haukar með 11 stig. Miklar framfarir þarf til að liðin haldi sér í deildinni. Rautt spjald og meiðsli um helgina gætu átt eftir að kosta Leikni. Tveir sigrar í röð hafa hins vegar komið Fjarðabyggð á lygnan sjó í bili með 13 stig í sjöunda sæti.

Hetti tókst ekki að vinna Gróttu á útivelli þrátt fyrir að hafa verið manni og marki yfir eftir rúmlega hálftíma leik. Tvö mörk heimaliðsins í seinni hálfleik snéru leiknum.

Liðið er í níunda sæti með 12 stig. Hæpið virðist að það vinni sig upp í toppbaráttu. Ef tvö neðstu liðin, Ægir og KF, eiga eitthvað inni í seinni hluta mótsins gæti Höttur dregist niður í alvarlega fallbaráttu ef leikur liðsins batnar ekki.

Todor Hristov heldur áfram að skora fyrir Einherja og er markahæstur í þriðju deild með níu mörk. Hann kom liðinu yfir gegn Dalvík/Reyni á Vopnafirði á laugardag. Sverrir Hrafn Friðriksson bætti við öðru marki skömmu fyrir leikslok.

Einherji er í fjórða sæti með 18 stig. Of mikið bil er upp í tvö efstu liðin til að raunhæft geti talist að liðið geti barist um að fara upp um deild en að sama skapi er fallbaráttan langt í burtu.

Kvennalið Einherja hefur spilað vel í sumar og vann sinn þriðja sigur þegar Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir kom í heimsókn síðasta fimmtudagskvöld, 2-0. Karen Ósk Svansdóttir og Barbara Kopasci skoruðu mörkin.

Einherji er í öðru sæti C riðils fyrstu deildar kvenna með 10 stig en Fjarðbyggð/Höttur/Leiknir í fjórða sæti með fjögur stig. Liðið tekur á móti Tindastól á Vilhjálmsvelli annað kvöld.

Einherji gæti komist í baráttu um að fara í úrslitakeppni deildarinnar. Liðið hefur skorað flest mörk allra í riðlinu, ellefu stykki og Kopasci er langmarkahæst með sjö.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.