Knattspyrna: Nýliðarnir unnu Austfjarðaslaginn - Myndir

Nýliðar Hugins höfðu betur í Austfjarðaslag fyrstu deildar karla í dag þegar þeir unnu Fjarðabyggð 1-2. Sextán ára framherji Seyðfirðinga reyndist varnarmönnum Fjarðabyggðar erfiður. Höttur tapaði á sjálfsmark á síðustu mínútu og Leiknir lá fyrir Selfossi.


Jafnræði var með liðunum framan af leik en það var Jose Embalo sem kom Fjarðabyggð yfir á 40. mínútu. Fyrirliðinn Birkir Pálsson sendi þversendingu í vörninni beint á Embalo sem var snöggur að athafna sig og skoraði með góðu skoti niður í hornið fær.

Seyðfirðingar byrjuðu seinni hálfleik á hápressu. Strax í fyrstu sókn hálfleiksins var Stefán Ómar Magnússon nærri búinn að skora eftir að hafa náð boltanum á undan markverðinum á vítateigsjaðrinum en Andri Þór Magnússon kastaði sér fyrir skot hans.

Fjórum mínútum seinna jafnaði Stefán Ómar eftir slæm varnarmistök. Marko Nikolic var á leiðinni upp vinstri kantinn en missti boltann frá sér inn í teiginn og þar með virtist sókn Hugins runninn út í sandinn.

Bakvörður Fjarðabyggðar ætlaði að hreinsa boltann frá rétt við stöngina en hitti hann illa og lagði beinlínis upp færi fyrir Stefán Ómar á markteigshorninu sem þakkaði fyrir sig með að hamra boltann upp í þaknetið.

Hápressa Hugins skilaði stigunum

Þegar liðin höfðu jafnað út varnarmistökin voru Huginsmenn miklu sterkari. Fylgjendur þeirra voru að minnsta kosti helmingur áhorfenda, sátu þétt saman og létu vel heyra í sér.

Huginn fékk nýja leikmenn í vikunni. Þeir byrjuðu á bekknum og voru allir komnir inn á þegar 20 mínútur voru eftir. Þá byrjuðu vandræði Fjarðabyggðar fyrir alvöru. Fremstu menn Hugins settu pressu á varnarmenn Fjarðabyggðar og þeim gekk bölvanlega að spila frá sér boltanum.

Þá átti Fjarðabyggð í mestu vandræðum með hinn sextán ára Stefán Ómar. Hann er líkamlega sterkur sterkur, gríðarlega fljótur en það sem er mest óþolandi fyrir varnarmennina er að hann er alltaf utan í þeim.

Á 79. mínútu skoraði Jaime Guijarro glæsilegt mark fyrir Huginn. Boltinn barst til hans á vítateigsjaðrinum hægra megin, hann lyfti boltanum upp fyrir sig og hamraði hann síðan á nærstöngina.

Seyðfirðingar hefðu átt að gera út um leikinn eftir markið því þeir fengu í kjölfarið ein þrjú dauðafæri. Guijarro skallaði boltann í stöng, Johnatan Lama hamraði boltann yfir rétt utan markteigs og skaut framhjá eftir að hafa komist einn á móti markverði með nægan tíma eftir þversendingu í vörninni.

Menn verða að vinna sér inn sæti

Brynjar Skúlason var ánægðari af þjálfurunum tveimur eftir leikinn. „Það er frábært að vinna loks Fjarðabyggð. Við höfum verið í vandræðum með þá síðustu ár.

Mér fannst við drulluflottir í seinni hálfleik. Við ætluðum okkur að ýta meira á þá sem þeir höndluðu ekki og gáfu okkur fyrsta markið.“

Eftir frábæran leik sóknarmannanna verður úr vöndu að velja í næstu leikjum. „Stefán Ómar skoraði þrjú mörk í æfingaleik gegn Þór í síðustu viku og átti skilið að byrja. Menn verða að vinna sér inn sæti. Guijarro er líka framherji, hann skoraði mark og var mjög góður og það er frábært að hafa tvo flotta frammi.“

Mættum ekki í seinni hálfleik

„Mér fannst við fínir í fyrri hálfleik en skelfilegir í seinni,“ sagði Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

„Mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og Huginsmenn ekki náð að skapa sér nein færi. Í seinni hálfleik gerist ekkert. Við mætum ekki til leiks. Menn tapa ekki getunni milli hálfleikja en það er hægt að tapa einbeitingunni og slíku.“

Hann vonast til að geta unnið með hugarfar leikmanna á næstunni um leið og hópurinn slípast saman en þrír leikmenn bættust í hópinn í vikunni. „Við vinnum í þessu. Menn eru fyrst núna að koma saman.“

Spennandi á Selfossi

Leiknir tapaði fyrir Selfossi 3-2 á útivelli eftir afar spennandi lokamínútur. Selfyssingar komust í 2-0 eftir tólf mínútur og virtust með nýliðana í hendi sér.

Ellefu mínútum fyrir leikslok var einum Selfyssinga vikið af velli fyrir að ræna Kristófer Pál Viðarsson upplögðu marktækifæri. Kristófer tók aukaspyrnuna sjálfur og skoraði beint úr henni.

Í uppbótartíma komust Selfyssingar í 3-1 í seinni fyrstu sókn eftir rauða spjaldið en Leiknismenn höfðu þá gert harða hríð að þeim. Hilmar Freyr Bjartþórsson minnkaði muninn í 3-2 með þrumufleyg af um þrjátíu metra færi en nær komust Fáskrúðsfirðingar ekki.

Slysalegt hjá Hetti

Í annarri deild tapaði Höttur á móti Njarðvík í Fellabæ. Vorkeimur var af fyrri hálfleik sem var fremur daufur, helst var að Njarðvík skapaði sér hálffæri. Höttur hressist eftir að skipt var inn á í seinni hálfleik en fékk fá alvöru færi.

Allt leit út fyrir steindautt jafntefli þar til á 90. mínútu. Kristófer Einarsson ætlaði að senda boltann aftur á markvörðinn en leit ekki upp áður. Markvörðurinn var ekki þar sem hann hugði og því rúllaði boltinn í markið.

Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0002 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0006 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0010 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0015 Wweb
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0016 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0020 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0023 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0034 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0039 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0040 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0043 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0044 Web
Fotbolti Fjardabyggd Huginn Mai16 0048 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar