Knattspyrna: Settu sér markmið um að vinna 8-0 – Myndir
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis vann á sunnudag 8-0 stórsigur á Leikni Reykjavík í annarri deild kvenna í knattspyrnu en liðin léku á Reyðarfirði. Fyrirliði liðsins segist hafa fulla trú á að liðið geti blandað sér í toppbaráttu deildarinnar.Leikurinn var frá upphafi einstefna að marki gestanna og strax eftir fimm mínútur var heimaliðið komið 2-0 yfir með mörkum Elísabetar Eir Hjálmarsdóttur og Julie Gavorski.
Jóhanna Lind Stefánsdóttir og Karyn Forbes bættu við mörkum fyrir hálfleik en í þeim seinni skoruðu Elísabet Eir og Julie sitt markið hvor auk þess sem Katrín Björg Pálsdóttir og Adna Mesetovic bættust á markaskoraralistann.
Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, fyrirliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis var ánægð með frammistöðu liðsins í leikslok. „Við vorum með yfirhöndina allan tímann og spiluðum mjög vel. Markmiðið í dag var að vinna 8-0, við sögðum það inni í klefa fyrir leik. Við töldum okkur vera mikið betri.“
Þetta er annar sigur liðsins í sumar en deildin er nokkuð höfn. Völsungur frá Húsavík hefur tekið afgerandi forustu en Austfjarðaliðið er eitt fjögurra sem líklegt er til að fylgja þar á eftir. Leiknir Reykjavík er svo á botninum.
Næsta á liðið leik gegn Gróttu í lok næstu viku. „Við þurfum að stilla okkur aðeins betur saman en ég held að við getum verið í toppbaráttunni. Við munum skoða þennan leik til að sjá hvað við gerðum vel og taka það með í næsta leik gegn Gróttu sem er með mjög sterkt lið.“
Í annarri deild karla hefur Leiknir Fáskrúðsfirði farið frábærlega og er á toppnum með 15 stig eftir sjö umferðir. Liðið vann um helgina Selfoss á heimavelli 2-1. Sæþór Ívan Viðarsson og Unnar Ari Hansson skoruðu mörkin. Fjarðabyggð er í sjöunda sæti en liðið tapaði 2-0 fyrir ÍR á útivelli.
Austfirsku liðin tvö í þriðju deild karla hafa ekki farið vel af stað. Höttur/Huginn tapaði 0-3 fyrir Fjallabyggð á Ólafsfirði á laugardag og er heldur sér fyrir ofan fallsætið á markatölu. Einherji er með einu stigi meira en liðið tapaði sínum fyrsta heimaleik í sumar 1-2 fyrir Reyni Sandgerði. Fyrirliðinn Bjartur Aðalbjörnsson skoraði markið.