Knattspyrna: Sigrar hjá Spyrni og Einherja

Spyrnir í fimmtu deild karla og Einherji í annarri deild kvenna voru þau austfirsku lið sem unnu leiki sína á Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina.

Spyrnir burstaði KM 6-0 á Fellavelli í gær. Heiðar Logi Jónsson skoraði tvö mörk en þeir Eyþór Magnússon, Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson, Þór Albertsson og Brynjar Árnason sitt markið hver. Spyrnir var 2-0 yfir þegar markverði gestanna var vikið af velli og strax í kjölfarið kom þriðja markið.

Bæði Austfjarðaliðin í annarri deild karla gerðu jafntefli. Höttur/Huginn markalaust á heimavelli við Víking Ólafsvík, KFA 1-1 við Þrótt í Vogum. Danilo Mienkovic jafnaði fyrir KFA eftir um klukkutíma leik.

FHL tapaði 1-0 fyrir Grindavík í Lengjudeild kvenna. Leikurinn fór fram við erfiðar veður- og vallaraðstæður en markið var skorað um tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Einherji vann hins vegar KH 1-4 að Hlíðarenda í annarri deild kvenna. Karólína Dröfn Jónsdóttir kom Einherja yfir á 14. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks. Á 54. mínútu skoraði Amanda Lind Elmarsdóttir annað mark úr víti, Viktoría Szeles þriðja markið á 74. mínútu og loks kom sjálfsmark fimm mínútum fyrir leikslok áður en heimaliðið náði að minnka muninn skömmu síðar.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar