Knattspyrna: Þrír mikilvægir sigrar

FHL er komið í frábæra stöðu í Lengjudeild kvenna eftir 5-1 sigur á Fram á þriðjudag. KFA og Höttur/Huginn unnu í gær mikilvæga sigra í baráttu sinni fyrir því annars vegar að komast upp, hins vegar að dragast ekki niður í fallbaráttuna.

Eftir leikinn gegn Fram er FHL hálfnað með deildarleiki sína. Staða liðsins er góð, það er efst í deildinni með 22 stig, þremur stigum frá Aftureldingu.

Það sem mestu máli skiptir er að átta stig eru í næsta lið þar á eftir HK, sem er í nokkuð þéttum pakka. Tvö efstu liðin fara upp um deild. Miðað við hvernig deildin hefur spilast til þessa þarf HK, eða nálægum liðum, að ganga virkilega vel og FHL að fatast verulega flugið til að ná upp átta stiga muninum.

Samantha Smith skoraði eina markið í fyrri hálfeik í leiknum á þriðjudag og Fram jafnaði eftir tíu mínútur í þeim seinni. Emma Hawkins skoraði á 61. og 62. mínútu og Samantha sitt annað mark á 74. mínútu. Emma fullkomnaði þrennuna í uppbótartíma.

KFA og Höttur/Huginn áttu leiki í annarri deild karla í gær sem voru mikilvægir, fyrir ólíkar sakir. KFA er í toppbaráttunni og mætti öðru lið úr henni, Völsungi á Húsavík. Sigur KFA, 0-2, þýðir að liðið er nú eitt í þriðja sætinu.

Heiðar Snær Ragnarsson skoraði fyrra markið strax á sjöttu mínútu. Síðan var ekkert skorað fyrr en á þriðju mínútu uppbótartíma leiksins þegar Julio Cesar Fernandes skoraði.

Eftir fjóra leiki í röð án sigurs hafði Höttur/Huginn dregist niður að fallsætinu. Mark Rafael Caballe á 17. mínútu var hið eina í 1-0 sigri á Fjallabyggð en leikið var á Vilhjálmsvelli. Með sigrinum hefur myndast bil milli tveggja neðstu liðanna, Reynis Sandgerði og Fjallabyggðar og liðanna þar fyrir ofan en Höttur/Huginn er þeirra á meðal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.