Knattspyrna: Vice Kendes afgreiddi Víking Ólafsvík

Knattspyrnufélag Austfjarða heldur áfram í toppbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Víkingi Ólafsvík á heimavelli um helgina. Línur eru teknar að skýrast í deildinni eftir tvær umferðir í nýliðinni viku.

KFA komst yfir gegn Víkingi á 17. mínútu og þannig var í hálfleik. Eftir miðjan seinni hálfleik dró til tíðinda.

Fyrst fengu þeir Ingigo Albizuri frá KFA og Daði Kárason frá Víkingi sitt rauða spjaldið hvor á 69. mínútu. Síðan jöfnuðu gestirnir úr víti á 77. mínútu. Vice Kendes kom KFA yfir strax á 79. mínútu og á 85. mínútu bætti hann við öðru marki.

KFA gerði 1-1 jafntefli við Völsung á Húsavík fyrr í vikunni. Esteban Selpa kom KFA yfir á 38. mínútu en heimaliðið jafnaði á áttundu mínútu uppbótartíma. Þá vann Höttur/Huginn Sindra 1-0 í fyrsta leik sumarsins á Vilhjálmsvelli. Alberto Lopez skoraði markið á 20. mínútu.

Um helgina tapaði liðið hins vegar 3-1 fyrir Fjallabyggð. Heimamenn komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en á 39. mínútu fékk Brynjar Þorri Magnússon rautt spjald. Fjallabyggð bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Almar Daði Jónsson minnkaði muninn á 63. mínútu en heimaliðið átti enn eitt mark eftir.

Austfjarðaliðin eru í sitt hvorum hluta deildarinnar sem skiptist milli 5. og 6. sætis en fimm stigum munar þar á milli. KFA er í fjórða sæti með 13 stig úr sjö leikjum, tveimur stigum frá toppliðið KFG. Höttur/Huginn er í 7. sæti með átta stig, þremur meira en botnlið Sindra.

Spyrnir skoraði sjö mörk gegn Afríku


Spyrnir spilaði líka tvo leiki, báða um helgina, í fimmtu deildinni. Á laugardag gerði liðið 1-1 jafntetefli við Berserki/Mídas. Heiðar Logi Jónsson jafnaði á 78. mínútu, skömmu efir að Spyrnir lenti undir.

Í gær vann liðið Afríku 0-7. Jakob Jóel Þórarinsson skoraði þrjú mörk, Heiðar Logi tvö og þeir Róbert Þormar Skarphéðinsson og Gísli Björn Helgason sitt markið hvor. Spyrnir er sem stendur í öðru sæti með 10 stig úr sex leikjum en önnur lið eiga 1-2 leiki til góða.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL gegn Fram á útivelli, 3-2. FHL lenti undir en jafnaði með sjálfsmarki og komst svo yfir fyrir leikhlé þegar Rósey Björgvinsdóttir skoraði eftir hornspyrnu. Fram jafnaði snemma í seinni hálfleik og skoraði sigurmarkið á lokamínútu venjulegs leiktíma. FHL er í sjöunda sæti með sex stig.

Mynd: Jón Guðmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.