Körfubolti: Barátta og trú skilaði óvæntum sigri á Keflavík
Höttur vann í gærkvöldi sinn annan leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið lagði Keflavík, nokkuð óvænt, 93-95 í spennuleik í Keflavík. Hattarmenn reyndust sterkari á lokasprettinum þar sem þeir hafa svo oft brotnað.„Þetta var þvílík barátta og trú hjá okkur. Við erum alltaf að verða betri og betri í að vinna jafnt og þétt og minnka sveiflurnar,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Leikurinn var jafn nánast frá byrjun, í fyrri hálfleik höfðu Keflvíkingar yfirhöndina en náðu ekki meira en sjö stiga forskoti, 45-38 þremur mínútum fyrir hálfleik. Hattarmenn náðu að minnka muninn í 48-46 fyrir hálfleik.
Keflvíkingar voru yfirleitt einni körfu á undan í seinni hálfleik þegar fjórar mínútur voru eftir náði Höttur að komast yfir 78-79. Á þeirri forskoti tókst liðinu að hanga.
„Kelvin hélt okkur á floti í fyrri hálfleik með að skora 25 stig. Í seinni hálfleik fengum við framlag úr ýmsum áttum, Bergþór Ægir átti góðan leik, Brynjar og Mirko skoruðu mikilvæg stig og svo skoraði Andrée risaþrist í lokin.“
Brottvísun kom liðinu til að berjast
Rúmar tvær vikur eru síðan Höttur vann sinn fyrsta leik þegar liðið lagði hitt botnliðið Þór Akureyri. Fram að þeim tíma talaði Viðar Örn oft um hjallann sem liðið þyrfti að yfirstíga með að vinna sinn fyrsta leik.
„Í gærkvöldi fórum við yfir enn stærri hjalla með að vinna Keflavík í Keflavík í jöfnum leik. Við gerðum oft á tíðum vel og tókum nokkra sénsa sem gengu upp. Yngri og óreyndari leikmenn búa að þessum sigri til lengri tíma.“
Viðar Örn, sem er spilandi þjálfari, var hins vegar inni í klefa í síðasta leikhlutanum þar sem hann fékk brottvísun eftir áflot við landsliðsmanninn Hörð Axel Vilbergsson í lok þess þriðja. „Við vorum í baráttu um boltann á miðjum vellinum og í þeim átökum sveiflaði ég olnboganum full vasklega. Dómararnir flautuðu á það, við því er ekkert að segja. Þetta kom hins vegar liðinu til að berjast og leggja sig fram.“
Kelvin leggur sig fram öllum stundum fyrir Hött
Kelvin Lewis var stigahæstur Hattar í gær með 35 stig. Hann er stigahæstur í deildinni með 25,8 stig í leik. Ekki hefur hins vegar alltaf farið mikið fyrir honum.
„Hann er frábær leikmaður og persóna sem hefur gert okkur betri. Hann leggur sig fram öllum stundum um að gera sitt besta fyrir félagið. Við erum virkilega ánægðir með hans framlag.“
Höttur mætir næst Tindastóli á Egilsstöðum. Ljóst er að þar verður erfiður leikur því Tindastóll er eitt liðanna fjögurra sem berjast um deildarmeistaratitilinn og nýkrýndir bikarmeistarar. Ekki er ljóst hvort Viðar Örn verði með eða hvort hann verði settur í leikbann fyrir brottvísunina í gærkvöldi.
„Tindastóll er topplið en það hlýtur að vera hægt að lemja aðeins á þeim líka eins og Keflvíkingunum.“