Körfubolti: „Barn sem dettur stendur upp aftur“
Hetti er spáð sigri í fyrstu deild karla í körfuknattleik af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í deildinni. Liðið féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor og hefur keppni í fyrstu deildinni í kvöld með að taka á móti Sindra frá Höfn.„Við hlökkum til kvöldsins, það er gott að boltinn sé að byrja aftur,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Hattar síðan í vor og litast að hluta af breyttum reglum. Í stað þess að lið megi aðeins hafa einn erlendan leikmann á vellinum í einu mega vera eins margir leikmenn af evrópska efnahagssvæðinu og liðin vilja.
Höttur hefur fengið til sín litháískan miðherja og spænskan framherja auk bandarísks bakvarðar. Með þeim er síðan öflugur hópur heimamanna, tveir slíkir nýkomnir aftur eftir meiðsli.
Viðar Örn segir hópinn í góðu standi fyrir kvöldið. Nökkvi Jarl Óskarsson er ekki leikfær vegna meiðsla í nára.
Í spá sem birt var í vikunni er Hetti spáð sigri í deildinni en liðið hefur tvisvar á síðustu þremur árum spilað í úrvalsdeildinni. Sindri er hins vegar að koma upp í fyrstu deildina í fyrsta sinn.
„Spáin hefur engin áhrif, við ætlum okkur að verða stöðugt úrvalsdeildarlið sem fyrst og teljum okkur vinna markvisst að því. Spáin er því ekki óeðlileg.
Barn sem dettur stendur aftur upp. Ef það dettur aftur þá stendur það upp. Við duttum og nú stöndum við upp og erum vonandi búnir að læra að ganga.“