Körfubolti: Berjast fyrir úrslitaleik við Hauka - Myndir

Höttur heldur áfram samkeppni sinni við Hauka á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Liðið vann öruggan sigur á liðinu í þriðja sæti, Álftanesi, á Egilsstöðum um síðustu helgi.

Höttur hefur tapað þremur leikjum í vetur, báðum leikjunum til þessa gegn Haukum og á útivelli gegn Álftanesi. Gestirnir fengu að vera aðeins yfir í fyrsta leikhluta en góður kafli Hattar í lok hans bjó til 23-18 forustu.

Í öðrum leikhluta sýndi Höttur klærnar. Sóknarleikur liðsins gekk frábærlega, liðið var með yfir 50% skotnýtingu og af hliðarlínunni virtust öll skot liðsins detta niður. Á sama tíma féll sóknarnýting Álftanes niður í um 30%.

Þetta riðlaði líka leik gestanna. Þeir fóru að taka ótímabær skot sem geiguðu og Höttur hirti fráköstin. Höttur spilaði líka öfluga vörn sem skilaði þó nokkrum stolnum boltum. Í hálfleik var Höttur með sjö stolna bolta gegn einum hjá Álftanesi og með þrjá tapaða bolta gegn átta.

Lætin hófust eftir um þriggja mínútna leik í öðrum leikhluta. Staðan var þá 31-27. Næstu sjö mínútur leikhlutans skoraði Álftanes aðeins fjögur stig en Höttur 22 þannig staðan í hálfleik var 53-31. Látunum linnti ekki fyrr en um miðjan þriðja leikhluta, Höttur var þá kominn í 30 stiga forskot, 68-31 og 86-30 þegar leikhlutanum lauk.

Síðustu fimm mínútur leiksins riðlaðist leikur Hattar. Liðið fór þá að taka óskynsamari skot og láta dóma fara í taugarnar á sér, Arturo Fernandez fór út af með fimm villur en þær tvær síðustu fékk hann fyrir að standa fyrir skyndisóknum Álftaness.

„Við spiluðum mjög vel í 35 mínútur, vorum í góðu stuði og vel gíraðir. Það var partý í gangi með diskókúlu og öllu. Síðan mættu dómararnir og kveiktu ljósin, þá var kominn tími til að fara heim.“

Trú á að fyrsta sætið sé möguleiki

Höttur og Haukar eru jöfn með 36 stig í efsta sætinu, bilið niður í Álftanes er orðið 10 stig. Haukar eiga hins vegar leik til góða en liðin mætast í lokaleik á Ásvöllum í Hafnarfirði. Höttur þarf að vinna sína leiki og treysta á að Haukar tapi einum til að knýja fram hreinan úrslitaleik um efsta sætið, sem gefur beint úrvalsdeildarsæti, þar sem Haukar hafa betur í innbyrðisviðureignum.

„Við verðum að halda áfram að þróa okkur sem lið, vinna okkar leiki og sjá hve langt það kemur okkur, hvort við fáum möguleika á úrslitaleik á Ásvöllum. Við verðum að fókusera á okkur, öðru breytum við ekki. Það er klisja sem er alltaf sönn. Við sáum að hlutirnir gengu ekki upp síðustu fimm mínúturnar hér í kvöld þegar við fórum að hugsa um dómarana og aðra hluti.

Deildin er keppni um fyrsta sætið, síðan sæti 2. – 5. til að komast í úrslitakeppnina. Við teljum okkur eiga möguleika á fyrsta sætinu en annað sætið skiptir líka máli því þá eigum við sterkan heimavöll í úrslitakeppninni.“

Tim Guers var stigahæstur Hattar með 35 stig en Arturo setti 28. Álftanes var án Bandaríkjamannsins Cedric Bowen en hjá Hetti vantaði Matej Karlovic.

Karfa Hottur Alftanes Feb22 0004 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0009 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0011 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0019 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0024 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0033 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0039 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0040 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0044 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0049 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0061 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0066 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0067 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0069 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0071 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0081 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0084 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0089 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0094 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0096 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0098 Web
Karfa Hottur Alftanes Feb22 0100 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar