Körfubolti: Einar Árni þjálfari við hlið Viðars

Körfuknattleiksþjálfarinn Einar Árni Jóhannsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Hött. Hann verður yfirþjálfari yngri flokka auk þess að þjálfa meistaraflokk félagsins með Viðari Erni Hafsteinssyni.

„Við verðum saman með meistaraflokkinn en Einar Árni tekur við yfirþjálfun yngri flokka sem ég hef verið með í tíu ár. Þetta er risastórt skref fyrir félag eins og Hött, en við teljum það rökrétt í að byggja félagið upp þá átt sem við viljum, sem er að búa til stöðugt úrvalsdeildarlið.

Til þess þurfum við halda áfram að stíga upp tröppurnar í meistaraflokki en gefa líka í yngri flokka starfið,“ segir Viðar Örn.

Einn reynslumesti þjálfari landsins

Einar Árni, sem er 44 ára gamall, er meðal þekktari körfuknattleiksþjálfurum landsins. Hann hefur lengst af verið með Njarðvík, bæði karla- og kvennalið félagsins. Hann var valinn þjálfari ársins í úrvalsdeild kvenna 2003 og í karlaflokki 2007. Undir hans stjórn varð karlaliðið bikarmeistari 2005 og Íslandsmeistari ári síðar, síðan hefur það ekki náð þeim titli.

Hann þjálfaði Breiðablik á árunum 2007-9, snéri þá aftur til Njarðvíkur, fór til Þórs Þorlákshafnar 2015-18 en hefur verið í Njarðvík síðan. Fyrir viku bjargaði liðið sér frá falli úr úrvalsdeild, á kostnað Hattar, en Einar Árni tilkynnti fljótt að hann yrði vart þjálfari áfram.

„Höttur er að ná sér í einn reynslumesta þjálfara landsins. Ég og stjórnin ræddum fyrir nokkru hvað væri í boði fyrir yfirþjálfara yngri flokka. Einar var spenntur fyrir þessu og félagið ánægt með að fá hann og hans stóru fjölskyldu. Það er líka gott fyrir samfélagið að fá nýtt fólk og jákvætt að því þyki spennandi að koma sem sýnir að við erum að komast meira á kortið.

Við tókum stöðuna á Einari Árna í vetur. Eftir að tímabilið kláraðist fóru viðræðurnar í gang og gengu hratt fyrir sig,“ segir Viðar Örn.

Meira en bara að mæta á æfingar

Einar Árni þekkir vel til í þjálfun yngri flokka, hann var yfirþjálfari þeirra í Njarðvík um árabil auk þess sem hann var fyrstu þjálfari yngri flokka landsliðanna. Hann og Viðar Örn þekkjast meðal annars þaðan en Viðar hefur unnið með yngri landsliðunum.

Einar mun þjálfa einn flokk sjálfur og stýra faglegu starfi en hann og Viðar þjálfa meistaraflokk karla saman. Að vera með tvo þjálfara, eða mjög reynslumikinn aðstoðarþjálfara, hefur færst í vöxt hérlendis síðustu misseri þótt alltaf kvikni upp spurningar eins og hver taki úrslitaákvörðunina.

„Maður sér þetta úti í heimi en körfubolti og fleiri íþróttir hérlendis eru komnar á þann stall að þjálfunin er meira en verkefni fyrir einn aðila, hvað þá ef hann er í fullu starfi. Við þjálfararnir göngum í ýmis önnur verk fyrir Hött heldur en að mæta á æfingar með boltapoka.

Við Einar höfum rætt samstarfið mikið. Mér líst vel á að fá hann inn því maður saknar þess stundum að geta ekki deilt skoðunum með öðrum fyrir austan. Stundum er betra að vera í hóp frekar en tala við sjálfan sig. Við þurfum síðan að móta vinnureglur í okkar starfi, eins og gert er í fyrirtækjum og víðar.

Við Einar Árni höfum starfað saman í yngri landsliðunum og þótt við séum ólíkir persónuleikar deilum við skoðunum á mörgu í körfuboltanum. Ég hef leitt starfið í tíu ár og á þeim tíma hefur margt gott gerst en það má alltaf gera betur og hann kemur með ferskt andrúmsloft inn í starfið.“

Hvað leikmannamál fyrir fyrstu deildina á næstu leiktíð segir Viðar Örn að þau séu að skýrast. „Vonandi berast jákvæðar fregnir fljótlega. Sumir heimamannanna okkar hafa ekki haft annan þjálfara en mig og það verður hollt fyrir þá að heyra aðrar raddir til að geta tekið næsta skref.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.