Körfubolti: Erum áfram með

Höttur vann í gærkvöldi mikilvægan sigur á Njarðvík, 72-74, í fallbaráttu úrvalsdeildar karla í körfuknattleik eftir æsilegar lokamínútur.

Njarðvíkingar fóru betur af stað og voru 23-18 yfir eftir fyrsta leikhluta en Höttur átti góðan annan leikhluta og var yfir 33-38 í hálfleik. Þá forustu lét liðið ekki af hendi, þótt hún minnkaði í lokin.

Fyrst jókst hún. Höttur spilaði áfram vel í þriðja leikhluta, náði mest 16 stiga forskoti og var yfir 49-61 fyrir lokasprettinn. Njarðvíkingar jöfnuðu í 72-72 þegar rúm mínúta var eftir. Hattarmenn misnotuðu sína sókn þannig heimamenn gátu komist yfir en tókst ekki að koma skoti á körfuna áður en skotklukkan rann út.

Höttur svaraði með körfu frá Michael Mallory þegar 11 sekúndur voru eftir. Njarðvíkingar fengu eina sókn í viðbót og settu upp þriggja stiga skot fyrir Loga Gunnarsson. Hattarmenn hafa nokkrum sinnum að undanförnu horft upp á mótherja sína grísa niður lokaskotum meðan þeirra geigaði.

En þarna brást mótherjunum loks bogalistin og þótt þeir næðu frákastinu var tíminn þeim ekki nægur til að koma skoti að körfunni.

„Þetta var svakalega mikilvægur sigur því hann snýst um að nú erum við áfram með,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.

„Frammistaðan var fín. Við byrjuðum svolítið rólega og augljóst var að mikið var undir. Svo spiluðum við mjög vel þangað til á lokamínútunum, þá hægðist óþarflega mikið á sóknarleiknum og við framkvæmdum okkar aðgerðir ekki nægilega vel.“

Michael Mallory var stigahæstur Hattarmanna með 26 stig. Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði ekki nema fimm stig en reif til sín 16 fráköst.

Eftir leikinn er Höttur og Haukar, sem unnið hafa tvo leiki í röð, með tíu stig í fallsætunum tveimur. Njarðvík er tveimur stigum fyrir ofan. Höttur fer næst til Akureyrar og leikur þar gegn Þór annan þýðingarmikinn leik á fimmtudagskvöld en Þór er í 8. sæti 16 stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.