Körfubolti: Hamar stöðvaði sigurgöngu Hattar - Myndir

Hamar úr Hveragerði, Breiðablik úr Kópavogi og Höttur eru öll í hnapp á toppi fyrstu deildar karla eftir að Hamar lagði Hött 70-75 á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfari Hattar segir leikinn í gær hafa verið vel spilaða viðureign tveggja öflugra liða.

Fyrir leikinn í gærkvöldi var Höttur eina liðið í deildinni sem aðeins hafði tapað einum leik, gegn Breiðabliki á heimavelli í þriðju umferð deildarinnar. Síðan hafði liðið unnið tólf leiki í röð.

Höttur byrjaði leikinn betur og komst í 5-0 en gestirnir voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 14-16. Höttur var sterkari í öðrum leikhluta og hefði verðskuldað stærra forskot en 38-35 í hálfleik, en þriggja stiga flautukarfa Matej Buovac bjargaði Hamri fyrir horn.

Bæði lið geta unað nokkuð vel við varnarleik sinn í gærkvöldi, sérstaklega Hamar eftir sem á leið. Að Höttur skildi ekki skora síðustu fjórar mínúturnar í þriðja leikhluta varð til þess að Hamar var að honum loknum með 56-57 forskot.

Hattarmenn komu grimmir inn í fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu fimm stigin. Þannig var staðan og Höttur að stilla upp í kerfi þegar Sigmar Hákonarson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar hrinti leikmanni Hamars, sem féll í gólfið. Sá hafði augnabliki áður slegið í Sigmar.

Vissulega tókst Hamri bara að skora eitt stig úr tveimur vítum og sókninni sem þeir fengu í kjölfarið og Höttur skoraði tvö stig í næstu sókn, en þetta atvik virtist bæði drepa niður stemminguna sem var að myndast í Hattarliðinu sem og í húsinu.

Þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiks loka var Höttur 69-63 yfir eftir þriggja stiga körfu Dino Stipcic. Aftur hrökk hins vegar allt í baklás og það sem eftir lifði leiks skoraði Höttur aðeins eitt stig í viðbót.

Margt hjálpaðist þar af. Í fyrsta lagi góð vörn Hamars sem varð til þess að sóknarleikur Hattar varð þunglamalegur. Í örðu lagi klikkuðu leikmenn Hattar þrisvar sinnum af vítalínunni og úr tiltölulega opnum skotum, þótt þau væru af nokkru færi. Í þriðja lagi fékk Marcus Van dæmdan á sig ruðning í stöðunni 70-71. Sá dómur gat fallið í hvora áttina sem var en í stað þess að Höttur fengi tvö stig og vítaskot fengu Hamarsmenn boltann og komust í 70-73. Þeir unnu síðan 70-75.

„Þetta var hörkuleikur frá upphafi til enda en það er drullusvekkjandi að landa ekki sigrinum eftir allt sem við lögðum í leikinn. Við gerðum vel en þeir gerðu það líka.

Við erum ekki nógu snjallir undir lokin og eigum erfitt með að skora síðustu fimm mínúturnar. Við klikkum á vítalínunni auk þess sem ég er ósáttur við nokkra dóma í lokin, en þannig er það,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Höttur er enn í efsta sæti deildarinnar, með 28 stig úr 16 leikjum, 14 sigra og tvö töp. Höttur hefur hins vegar leikið flesta leiki toppliðanna þriggja, Breiðablik og Hamar hafa einnig tapað tveimur leikjum í vetur. Óveðrið í vetur hefur sett nokkurn strik í reikninginn í leikjaskipulaginu.

„Við erum enn í góðri stöðu. Við höfum tapað áður og vinnum úr þessu. Þetta er alltaf það sama, við verðum að einbeita okkur að næsta leik og halda áfram að bæta okkur,“ sagði Viðar.

Karfa Hottur Hamar Jan20 0003 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0004 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0010 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0012 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0016 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0017 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0021 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0026 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0029 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0044 Web
Karfa Hottur Hamar Jan20 0048 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.