Körfubolti: Hetti spáð öðru sætinu
Hetti er spáð öðru sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik í vetur af forráðamönnum liðanna í deildinni.Spá þeirra var birt í hádeginu í dag. Haukum, sem féllu með Hetti í vor, er spáð fyrsta sætinu sem tryggir sæti í úrvalsdeildinni næsta tímabil.
Liðin í 2. – 5. sæti spila um annað laust sæti. Á eftir Hetti komu Sindri, Álftanes og loks Fjölnir.
Spáin kemur þó kannski frekar seint út þar sem tvær umferðir eru búnar af deildinni og styrkur liðanna aðeins farinn að koma í ljós.
Höttur hefur unnið báða sína leiki en á föstudag lagði liðið Selfoss 87-104 á útivelli. Höttur hafði undirtökin allan tímann, var 18-24 yfir eftir fyrsta leikhluta og 38-41 í hálfleik.
Í seinni hálfleik dró í sundur. Höttur var 61-68 yfir eftir þriðja leikhluta. Selfoss náði að minnka muninn í 70-74 snemma í fjórða leikhluta en seinni hluta hans stakk Höttur af.
Arturo Fernandez var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig.