Körfubolti: Hetti tókst ekki að halda sér uppi
Höttur féll úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi eftir 62-74 ósigur gegn deildameisturum Keflavíkur. Hattarliðið var yfir í hálfleik en gekk illa að hitta körfuna í seinni hálfleik.Höttur var með frumkvæðið í fyrri hálfleik, 15-14 eftir fyrsta leikhluta og 30-29 eftir annan leikhluta. Stigaskorið endurspeglar leikinn, hvorugt liðið tók mikla áhættu í sóknarleiknum en var kannski fyrst og fremst mislagðar hendur þar. Þegar komið var fram undir hálfleik höfðu þau samanlagt nýtt 3/23 þriggja stiga skotum sínum. Þá var sóknarnýting gestanna á þeim tíma aðeins 18%.
Því miður fyrir Hött batnaði hún í seinni hálfleik og skoraði gestaliðið þá 45 stig. En þótt Höttur skoraði fleiri stig en í þeim fyrri, 32 talsins, var það alltof oft sem skyttum liðsins brást bogalistin.
Sterk vörn gestanna
Keflvíkingar spiluðu sterka vörn á Bandaríkjamanninn Michael Mallory sem skoraði aðeins 10 stig. Undir öðrum kringumstæðum hefði átt að losna um aðra leikmenn en þeir nýttu ekki færi sín. Bryan Alberts hefur oftast verið öflugur skotmaður en hann hitti til að mynda ekki úr neinni af sjö þriggja stiga tilraunum sínum í gærkvöldi.
Þegar kom fram í þriðja leikhluta virtist líka draga úr þeirri orku sem Hattarliðið hafði áður sýnt. Munaði þar trúlega meðal annars um að hópurinn hafði þynnst strax í öðrum leikhluta þegar Dino Stipcic varð að hætta leik eftir höfuðhögg.
Eysteinn Bjarni stigahæstur
Besti maður Hattar í gær var Eysteinn Bjarni Ævarsson. Hann skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og stal þremur boltum. Eysteinn Bjarni hefur átt ágætt tímabil, hann er ekki sá leikmaður sem mest fer fyrir í stigaskori og sóknarleik, en þegar tölfræði hans er skoðuð kemur í ljós mikilvægt framlag hans til liðsins með fráköstum og stolnum boltum auk stoðsendinga, eins og í gær.
Það sama má segja um miðherjann Sigurð Gunnar Þorsteinsson, sem tók 12 stig, tók 8 fráköst og stal fimm boltum í gær. Gagnrýna má Sigurð Gunnar fyrir að hafa of oft í vetur komist í óþarfa villuvandræði fyrir að vera seinn til og slá í mótherja, en hann kom með vilja inn á völlinn sem virtist oft drífa liðið áfram eins og í frábærum þriðja leikhluta gegn Þór Þorlákshöfn fyrir viku.
Þýðir ekki að leggjast niður
„Við gerðum hlutina almennt ágætlega en skotin fóru ekki niður, við vorum með 17% þriggja stiga nýtingu. Til að vinna besta lið landsins hefðum við þurft að hitta á hörkuleik. Þeir voru betri og lölluðu í gegnum þetta,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn í gær.
Hann hét því að Höttur myndi rísa strax upp aftur. „Við förum í fyrstu deildina til að vinna hana og fara beint upp. Okkar yfirmarkmið er að vera með gott úrvalsdeildarlið og styðja við öflugt körfuknattleiksstarf á Austurlandi.
Ég sagði við fólk í dag að hvernig sem færi í kvöld væri þetta ekki spurning um að fara að grenja. Þótt ég hafi heitið því að sýna ekki tilfinningar eru þær við að brjótast út. En þótt ég sé drullusvekktur þýðir ekki að leggjast niður.“