Körfubolti: Höttur efstur um jólin eftir sigur í toppslagnum

Höttur verður í efsta sæti fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir að hafa unnið Breiðablik í Kópavogi í gærkvöldi í uppgjöri efstu liða deildarinnar. Blikar byrjuðu leikinn mun betur en Höttur snéri taflinu við með afar öflugum varnarleik.

Blikar skoruðu fyrstu 15 stig leiksins og voru rúmar fimm mínútur liðnar af leiknum þegar Höttur komst á blað með þriggja stiga körfu Matej Karlovic. Munurinn var þó skiljanlega orðinn mikill og Breiðablik var 26-13 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Höttur hélt hins vegar áfram að saxa á forskotið og þegar komið var að hálfleik var forskot Blika aðeins eitt stig, 41-40. Höttur hafði þá andartaki fyrr komist yfir, 38-40.

Leikurinn var áfram í járnum, eftir þriðja leikhluta var Höttur 55-60 yfir. Liðið hélt áfram að auka forustuna sem fór mest í 13 stig, 55-68. Höttur hélt áfram þægilegu forskoti þar til um þrjár mínútur voru eftir. Blikar spýttu þá í lófana og minnkuðu þá muninn í tvö stig.

Blikar voru síðan stigi undir, 75-76 þegar tíu sekúndur voru eftir en Hattarmenn héldu haus, Dino Stipcic setti niður tvö vítaskot og Blikum tókst ekki að nýta sér þær fimm sekúndur sem þá voru eftir.

Þurftu að taka leikhlé og anda djúpt

„Mér fannst leikur okkar í gærkvöldi mjög góður, fyrir utan fyrstu sex mínúturnar. Við vorum þá að koma okkur í taktinn meðan Blikar svínhittu úr öllum sínum skotum,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

„Körfuboltaleikir ganga alltaf í sveiflum og áhlaupum. Blikar byrjað mjög ákveðið í flestum sinna leikja en við þurftum að taka leikhlé í stöðunni 15-0 og skerpa á hlutunum. Við vorum ekki nógu ákveðnir í vörninni en í sókninni opnuðum við fyrir fullt af skotum, við bara hittum ekki.

Við þurftum að anda djúpt og byrja aftur að vinna eftir þeirri leikáætlun sem við settum upp. Ég er mjög ánægður með strákana, þeir gerðu það vel og leikurinn var í jafnvægi eftir munurinn komst niður í 10 stig.“

Dómarar þurfa meiri aðstoð við tímatökuna

Stuðningsmenn Hattar hefðu samt þegið minni spennu í lokin. „Blikar gerðu vel í að koma sér til baka, þeir voru fljótir að koma sér í þriggja stiga skotin og hittu þannig þeir náðu að jafna leikinn. Við gerðum hins vegar vel í að loka sókn þeirra. Þeir fengu síðan tvö tækifæri á síðustu sekúndunum en við gerðum vel í að koma í veg fyrir að þeir næðu skoti.“

Reikistefna varð í lokin vegna vandræða í tímatöku í lokasókn Blika, sem þýddi í raun að þeir fengu tvær tilraunir í hana. Viðar Örn kallar eftir að hugað verði að aðgerðum til að tryggja tímatökuna á lokasekúndunum.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist en klukkan fór ekki af stað og dómarinn flautaði of snemma þannig þeir fengu aftur innkast og nokkrar sekúndur. Það þarf að gera kröfu um að umgjörðin í deildinni batni þannig að dómararnir geti skoðað atvik sem þessi á myndbandi. Umgjörðin í deildinni á að vera betri en hún var á þessum leik í Kópavogi í gærkvöldi.“

Úrvalsdeildarsætið kemur ekki af sjálfu sér

Með sigrinum í gærkvöldi tryggði Höttur sér efsta sætið þar til deildin hefst á ný í janúar. Liðið hefur aðeins tapað einum leik, á heimavelli gegn Breiðabliki, og hefur því tveggja stiga forskot á Breiðablik. „Þetta var risastór sigur. Blikar hafa skorað yfir 100 stig að meðaltali í leik í vetur og við héldum þeim undir 75 stigum. Í deildinni er leikin þreföld umferð og staðan í deildinni ræðst af innbyrðisviðureignum. Þess vegna er mikilvægt að vinna leikina gegn þessum liðum sem við teljum að muni fylgja okkur.“

En enn er mikið verk eftir á nýju ári. „Það er alltaf gott að vera á toppnum en það gefur ekkert ef við nýtum ekki þann grunn sem við höfum byggt. Það eru stærri leikir og meiri vinna eftir. Við verðum að halda áfram að bæta okkur, það gerist ekkert af sjálfu sér.“

Viðar segist ekki vænta neinna breytinga á leikmannahópnum í byrjun janúar, slíkt væri glapræði miðað við hvernig liðið hafi spilað í síðustu leikjum. Helst þurfi að bæta sóknarleikinn en vegna þess hve vörnin er öflug virðist liðinu duga að skora 80 stig til að vinna leikina.

Karlovic var stigahæstur hjá Hetti í gærkvöldi með 27 stig, Stipcic skoraði 19 og Marcus Van 16, auk þess að taka 18 fráköst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.