Körfubolti: Höttur aftur á toppinn eftir sigur á Selfossi
Höttur komst í gærkvöldi á ný í efsta sæti fyrstu deildar karla í körfuknattleik með að vinna Selfoss í framlengdum leik.Selfyssingar voru yfir 13-15 eftir fyrsta leikhluta en Höttur var yfir í hálfleik, 42-38. Þar munaði um góðan kafla síðustu tvær mínútur hálfleiks þegar heimamenn breyttu stöðunni úr 34-36 í hálfsleikstölurnar.
Þessi munur hélst í gegnum þriðja leikhluta, að honum loknum var staðan 72-67. Eftir að Höttur hafði verið með góða stöðu, 79-70 snemma í fjórða leikhluta fór allt í baklás og Selfyssingar komust yfir, 83-85.
Þeir voru enn með yfirhöndina þar til fáar sekúndur voru eftir en Hattarmenn jöfnuðu í 91-91. Gestirnir fengu sex sekúndur til sóknar en Juan Luis og síðan Matej Karlovic vörðu skottilraunir þeirra svo framlengt var.
Þar tók Bandaríkjamaðurinn Tim Guers af skarði og skoraði tíu af fyrstu tólf stigum Hattar sem unnu 107-99. Guers var stigahæstur með 29 stig.
Höttur komst með sigrinum á ný í efsta sæti deildarinnar er með 28 stig eftir sautján leiki. Haukar eru í öðru sæti með 26 stig en úr aðeins 15 leikjum. Þeir unnu uppgjör liðanna 90-96 á laugardag og geta náð Hetti með sigri á Hamri í kvöld.
Höttur og Haukar hafa nú slitið sig frá öðrum liðum og berjast um fyrsta sætið sem gefur sæti beint í úrvalsdeild, en næst á eftir koma Álftanes og Fjölnir með 22 stig úr 17 leikjum. Næsti leikur Hattar er gegn Hrunamönnum á Egilsstöðum á föstudagskvöld.