Orkumálinn 2024

Körfubolti: Höttur bjargaði sér í seinni hálfleik

Höttur vann sinn þriðja sigur í fyrstu deild karla í körfuknattleik í röð þegar liðið lagði Álftanes 88-84 þegar liðin mættust á Egilsstöðum á föstudagskvöld.

Álftanes yfirspilaði Hött í fyrri hálfleik, var 18-29 yfir eftir fyrsta leikhluta og 42-56 í hálfleik. Álftanes virtist ná að leggja leikinn vel upp og virtist framlagið dreifast nokkuð jafnt milli leikmanna þess, meðan heimamenn þurftu að hafa meira fyrir hlutunum.

Gestirnir virtust líka ákveðnari eins og 20 fráköst gegn tólf í fyrri hálfleik bera vott um.

Hattarmenn skoruðu fyrstu sjö stigin í seinni hálfleik og til að bregðast við því tóku gestirnir leikhlé eftir aðeins eina og hálfa mínútu. Um miðjan þriðjunginn var munurinn kominn niður í 58-60 og jafnt, 66-66 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir. Gestirnir sigu aðeins aftur fram úr í lokin og voru 68-73 eftir þriðja leikhluta.

Höttur hélt áfram að sækja á Álftanes í fjórða leikhluta og komst loks yfir þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Adam Eiður Ásgeirsson keyrði þá á körfunni og kom Hetti í 77-76.

Álftanes var hins vegar yfir 79-82 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Vendipunktur var þegar 55 sekúndur voru eftir. Matej Karlovic komst þá inni í sendingu frá landa sínum og fyrrum samherja, Dino Stipcic og skoraði þriggja stiga körfu úr sókninni sem fylgdi á eftir.

Þegar 32 sekúndur voru eftir jöfnuðu gestirnir á ný í 84-84 en tíu sekúndum síðar setti David Guardia niður þriggja stiga skot. Eftir það tókst Hattarmönnum að hanga á forskotinu og landa seiglusigri eftir slakan fyrri hálfleik.

Timothy Guers var atkvæðamestur hjá Hetti með 27 stig og tíu fráköst. Arturo Fernandez skoraði 21 stig og sendi sjö stoðsendingar.

Þrír fyrrum leikmenn Hattar voru í gestaliðinu, auk Dino þeir Ásmundur Hrafn Magnússon og Eysteinn Bjarni Ævarsson. Dino var atkvæðamestur þeirra með 16 stig og níu stoðsendingar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.