Körfubolti: Höttur burstaði Hauka í fyrsta leik

Höttur fer vel af stað í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 80-108 stórsigur í leik liðanna í Hafnarfirði í gærkvöld.

Haukar fengu aðeins að sprikla fyrstu mínúturnar en eftir að staðan breyttist úr 15-12-17-25 sáu þeir einfaldlega ekki til sólar. Höttur var 22-30 yfir eftir fyrsta leikhluta og 36-48 í hálfleik.

Forustan hefði getað verið minni því Haukar brutu á Adam Eiði Ásgeirssyni í þriggja stiga skoti þegar tíminn rann út. Adam Eiður, aldrei þessu vant, hitti ekki úr neinu þriggja stiga skota sinna í leiknum en setti niður vítin þrjú.

Á móti höfðu Haukar fulla ástæðu til að vera trekktir gagnvart þriggja stiga skotum Hattar sem í gærkvöldi flugu ofan í körfuna eitt af öðru. Þau urðu áður en yfir lauk 17 talsins og nýtingin 55%.

Höttur var 52-74 eftir þriðja leikhluta og í fjórða leikhluta tók munurinn að teygjast í 30 stiginn. Hann náði aðeins yfir það rétt áður en leiknum lauk.

Höttur hefur í gegnum tíðina þekktast fyrir öflugan varnarleik. Tvisvar snemma síðasta vetur skoraði liðið yfir 100 stig, þar af í annað skiptið í fyrstu umferðinni. Nýi Bandaríkjamaðurinn Courvoisier McCauley kom vel út í gær, setti niður 26 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur. Níu fráköst lofa líka góðu. Nemanja Knezevic skoraði 17 stig og tók 17 fráköst.

Obie Trotter skilaði sínu, skoraði 16 stig, hitti úr 5/6 tilraunum í leiknum og stal tveimur boltum. Nýi Daninn, Adam Heede-Andersen, skoraði 9 stig en sótti 7 villur og átti sex stoðsendingar, var hæstur Hattar í síðartöldu tölfræðiþáttunum tveimur.

Þá var Höttur án tveggja leikmanna, David Guardia sem einnig verður í leikbanni gegn Keflavík eftir viku og Matej Karlovic, sem hefur glímt við meiðsli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar