Körfubolti: Höttur ekki í vandræðum með botnlið Hamars

Höttur vann í gærkvöldi nokkuð þægilegan 93-80 sigur á botnliði Hamars úr Hveragerði í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Hamarsliðið hefur ekki unnið leik á leiktíðinni en Höttur er í mikilli baráttu um að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Eftir að Hamar skoraði fyrstu körfu leiksins gaf fyrirliðinn Adam Eiður Ásgeirsson tóninn með að setja niður þriggja stiga körfu. Höttur gaf Hamri ekkert svigrúm og komst fljótt í 17-6. Hamar minnkaði þó muninn niður í 22-20 áður en leikhlutinn var búinn.

Höttur náði fljótt um tíu stiga forskoti á ný og bætti svo hraustlega í þegar það skoraði átta stig í röð. Þar með breyttist staðan úr 38-29 í 46-29 og staðan orðin snúin fyrir Hamar. Í hálfleik var staðan 48-33.

Höttur hélt þessari forustu í seinni hálfleik. Eftir þriðja leikhluta var staðan 70-53 og forskotið var aldrei í hættu í fjórða leikhluta. Bæði lið gáfu leikmönnum sem sjaldnar spila tækifæri undir lokin. Þau voru þó bæði frekar þunnskipuð, í tilfelli Hattar vegna veikinda. David Ramos skoraði 25 stig fyrir Hött en Adam Eiður 23.

En það sem skiptir máli er staðan í deildinni og eftir leikina í gærkvöldi er Höttur í 6. sæti með 18 stig, jafn mörg og Álftanes og tveimur meira en Stjarnan og Tindastóll. Stjarnan á þó leik til góða. Sex umferðir eru eftir af deildinni og er orðið tölfræðilega útilokað að Höttur falli, sem er árangur í sögulegu samhengi, því þegar liðið hélt sér uppi í fyrsta sinn í fyrra tryggðist það í næst síðustu umferð.

Mynd: Daníel Cekic

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar