Körfubolti: Höttur ekki í vandræðum með ryðgaða Selfyssinga
Höttur treysti stöðu sína á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik þegar liðið vann Selfoss örugglega 85-64 á Egilsstöðum í gærkvöldi.Selfyssingar virtust nokkuð ryðgaðir í leiknum þar sem liðið sat hjá í fyrstu umferð nýs árs og höfðu því ekki spilað keppnisleik í meira en mánuð.
Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt og liðin skiptust á að skora en um miðjan leikhlutann seig Hattarliðið frá og var 22-11 yfir að honum loknum. Talsvert var um átök og leikmenn liðanna fengu alls 11 villur í fyrsta leikhlutanum.
Höttur hélt áfram að auka muninn í öðrum leikhluta þannig að staðan í hálfleik var 46-25. Selfyssingar sköpuðu sér ágæt skotfæri en nýtingin var ekki góð. Þetta virtist fara í skapið á þeim og vart varð við pirring í þeirra röðum. Brynjar Grétarsson átti ágætan fyrri hálfleik hjá Hetti og setti niður fjórar þriggja stiga körfur.
Seinni hálfleik var svipaður og sá fyrri. Hattarmenn höfðu góð tök á leiknum og Selfyssingar virtist hreinlega ekki hafa trú á verkefninu. Undir lokin fengu yngri leikmenn Hattar tækifæri á að spreyta sig og stóðu sig vel.
Um miðjan þriðja leikhluta sauð upp úr þegar Svavar Ingi Stefánsson, leikmaður Selfoss, virtist kýla Spánverjann David Ramos hjá Hetti í gólfið. Dómarar leiksins skoðuðu atvikið á myndbandi, þar sem það leit ekki jafn illa út og við fyrstu sýn, áður en þeir dæmdu óíþróttamannslega villu á Svavar Inga. Viðar Örn Hafsteinsson uppskar tæknivillu fyrir að deila skoðun sinni á brotinu.
Leikurinn var ekki sá mest spennandi sem Hattarliðið hefur spilað í vetur, en það var gaman að fylgjast með leikmönnum reyna að toppa hvern annan í troðslum. Munurinn á liðunum var þó fyrst og fremst þriggja stiga nýtingin, 35% hjá Hetti og 21% hjá Selfossi.
Marcus var stigahæstur hjá Hetti, skoraði 22 stig og fiskaði sjö villur á Selfyssinga, sem réðu illa við hann undir körfunni. Í þeirra liði var Christian Cunningham öflugastur með 26 stig og 15 fráköst.