Körfubolti: Höttur enn án sigurs

Höttur er enn án sigurs eftir fimm umferðar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Liðið tapaði í gær 86-103 fyrir Tindastóli á heimavelli.

Höttur byrjaði leikinn ágætlega og var 29-20 yfir eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir skoruðu fyrstu ellefu stigin í öðrum leikhluta og komust yfir. Hetti tókst að jafna í 35-35 en Skagfirðingar náðu annarri rispu fyrir hálfleik og voru 40-52 yfir í hálfleik.

Höttur byrjaði seinni hálfleikinn vel og jafnaði í 54-54 með 12-2 kafla en aftur sigu gestirnir fram úr. Hattarliðið eygði von þegar Bandaríkjamaðurinn í liði Tindastóls, Shawn Glover, var útilokaður frá leiknum vegna tveggja tæknivillna.

En í stað þess að Höttur gengi þá á lagið stigu aðrir leikmenn gestanna upp. Í fjórða leikhluta lokuðu þeir svo vörninni og átti heimaliðið engin svör við því.

Michael Mallory var stigahæstur hjá Hetti með 22 stig. Ellefu þeirra skoraði hann í þriðja leikhluta, þar af níu á fyrstu mínútunum þegar Höttur jafnaði með áhlaupi sínu. Í fjórða leikhluta skoraði hann ekkert stig og þótt í einhverjum tilfellum losnaði um samherja nýttu þeir ekki það færi.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson sýndi mikla baráttu og skoraði 18 stig. Eysteinn Bjarni Ævarsson lék vel í fyrsta leikhluta. En það vantaði bæði að þeir og aðrir ættu góðan leik frekar en góða kafla.

„Það er ekki endalaust hægt að segja að við tökum eitthvað út úr leiknum. Leikurinn er 40 mínútur. Við getum verið flottir en það er helvítis óþolandi að setja saman 30 mínútur því það er ekki nóg. Við verðum að setja saman 40 mínútur og það er næsta verk,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

„Vilji Tindastóls til að klára leikinn skildi að liðin. Þeir hirða af okkur fráköst, við gerum mistök og verðum skíthræddir. Við viljum vinna en erum smeykir við að stíga upp og klára leikina. Ég veit ekki af hverju, ef ég hefði svarið þá væri ég búinn að koma því inn á völlinn.“

Höttur spilar næst á fimmtudag gegn Vali í Reykjavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar