Körfubolti: Höttur gat jafnað í síðasta skoti

Höttur tapaði í gærkvöldi fyrir Þór Þorlákshöfn, 83-84 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Höttur fékk færi á að jafna leikinn í síðustu sókninni.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Hött því önnur skotklukkan bilaði skömmu fyrir leik. Hún fór í gang eftir viðgerð en hún dugði ekki lengi og þá var ljóst að bilunin væri stærri en talið var. Við bættist að eftir seinna skiptið sást reykur líða aftur úr klukkunni þannig stöðva þurfti leikinn aftur til að grípa inn í það.

Höttur var annars undir eftir fyrsta leikhluta, 22-24. Þegar á leið annan leikhluta varð leiðin að körfu Þórs erfiðari. Þór gekk ekki vel að skora heldur en hitti úr nokkrum skotum á lokamínútunni og fór því með 37-44 forskot inn í leikhlé. Þór hitti ágætlega áfram í þriðja leikhluta en Höttur bjargaði möguleikanum með fimm stigum í lokin þannig að staðan var 62-73.

Víti til að jafna


Höttur sótti áfram á Þór með sjóðheitan Deontaye Buskey í fararbroddi, en hann skoraði 30 stig í seinni hálfleik. Þór virtist kominn með sigurinn þegar ein og hálf mínúta var eftir. Þá setti Buskey niður tvær þriggja stiga körfur og svo stal Obie Trotter boltanum þegar tuttugu sekúndur voru eftir.

Höttur hafði 20 sekúndur í sóknina. Þór spilaði fína vörn en loks var það Adam Eiður Ásgeirsson sem keyrði að körfunni og sótti brot.

Fjórar sekúndur voru eftir á klukkunni þegar Adam Eiður fór á vítalínuna. Hann hitti úr fyrra skotinu en það seinni skoppaði af hringnum og í hendur Þórsara. Höttur náði ekki að brjóta strax. Þegar þeir brutu loks varð reikistefna um hvort leiktíminn væri liðinn. Dómararnir fóru að skjánum til að skoða atvikið og eftir nokkra umhugsun skáru þeir úr um að svo væri og Þór þar með sigurvegari með einu stigi.

Heilt yfir ánægður með frammistöðuna


„Varnarleikurinn var ekki nógu góður í þriðja leikhluta. Þeir fengu of margar auðveldar körfur. Fjórði leikhluti var góður og við komum til baka. Heilt yfir var ég ánægður með frammistöðu minna manna. Það var margt annað sem ég var ósáttur við,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Hann gagnrýndi dómara leiksins en sagði þá hafa kostað bæði lið. Hann bætti við svo: „Varnarleikurinn í þriðja var ekki nógu góður og svo voru nokkur klikk eftir það þannig við náðum ekki alla leið til baka.“

Höttur gerði nokkur mistök í fjórða leikhluta. Matej Karlovic fékk sína fimmtu villu fyrir að fara utan í leikmann Þórs í þriggja stiga skoti. Mótmæli Hattar kostuðu tæknivillu, þá aðra í leiknum og löngu eftir að dómarar leiksins höfðu gefið skýrt til kynna að nóg væri komið. Þá reyndi Karlovic sirkussendingu á Buskey í hraðaupphlaupi undir lokin sem mistókst, þótt vissulega munaði ekki miklu.

Buskey var stigahæstur Hattar í leiknum með 40 stig. Miðherjinn Nemanja Knezevic átti einnig frábæran leik þar sem hann tók 19 fráköst, þar af 11 í sókninni og skoraði 10 stig.

karfa hottur thorth okt23 0004 web

karfa hottur thorth okt23 0005 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.