Körfubolti: Höttur hefur tímabilið gegn Haukum

Höttur mætir Haukum í Hafnarfirði í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld. Mikið er undir í leiknum miðað við að liðunum er spáð fallbaráttu. Nokkrar breytingar hafa orðið á Hattarliðinu í sumar.

Þrátt fyrir að Höttur hafi komist í úrslitakeppnina í vor, í fyrsta skiptið í sögu félagsins, er liðinu engu að síður spáð fallbaráttu í spá fjölmiðla og liðanna í deildinni sem birt var fyrir viku.

Í fjölmiðlaspánni lendir Höttur í næst neðsta sæti, aðeins stigi á eftir Haukum. Í spá félaganna hafa liðin sætaskipti. Nýliðar ÍR eru neðstir í báðum spáð og hitt nýja liðið, KR, skammt fyrir ofan ásamt Njarðvík.

Nokkrar breytingar hafa orðið á Hattarhópnum í sumar. Mögulega er sú stærsta að Einar Árni Jóhannsson lét af störfum þjálfara eftir síðasta tímabil. Í stað hans er kominn Salvador Guardia frá Spáni. Á Egilsstöðum hittir hann fyrir litla bróður sinn, David Guardia sem leikið hefur með Hetti frá árinu 2018. David verður þó ekki með í kvöld þar sem hann tekur enn út leikbann vegna brots í úrslitakeppninni.

Salvador skrifaði í sumar undir tveggja ára samning við Hött. Hann var frá 2020-23 aðstoðarþjálfari og yfirmaður unglingastarfs Baloncesto Fuenlabrada sem þann tíma var í efstu deild. Hann var sjálfur atvinnumaður í um 20 ár og hefur síðan verið í ýmsum stjórnunarstöðum, auk þess að lýsa leikjum í sjónvarpi.

Bandaríkjamaðurinn Deontaye Buskey er farinn til Frakklands en í hans stað er kominn Courvoisier McCauley, 26 ára skotbakvörður. Hann lauk háskólaferli sínum með Indiana State árið 2023 en spilaði síðasta vetur í Lúxemborg.

Eysteinn Bjarni Ævarsson hefur snúið austur á ný. Hann er uppalinn Hattarmaður sem spilaði síðast með liðinu 2020-21. Hann lék síðustu tvö ár með Álftanesi. Að auki á hann að baki tímabil með Keflavík og Stjörnunni. Á móti er Gísli Þórarinn Hallsson farinn aftur í Sindra.

Þá hefur nýr Dani, Adam Heede-Andersen, bæst í hópinn. Hann er skotbakvörður sem undanfarin fimm ár hefur spilað með Værløse. Þar áður spilaði hann í bandarískum háskóla. Hann vann sig í ár inn í danska landsliðshópinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar