Orkumálinn 2024

Körfubolti: Höttur í efsta sætið

Höttur trónir á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir að hafa orðið fyrsta liðið til að vinna Hamar í vetur. Liðin tvö berjast við Breiðablik um efsta sætið sem í lok leiktíðar veitir sæti beint í úrvalsdeild.

Hetti gekk ágætlega í Hveragerði á síðustu leiktíð þar sem liðið vann þrjár af fimm viðureignum liðanna. Auk þess að spila þrjá deildarleiki mættust liðin í undanúrslitum deildarinnar þar sem Hamar hafði betur eftir oddaleik.

Velgengni Hattar í Hveragerði hélt áfram síðasta fimmtudagskvöld þegar liðið vann þar 82-87, varð þar með fyrst liða til að vinna Hamar í deildinni í vetur og hirti efsta sætið af heimaliðinu um leið.

Hamarsliðið fór betur af stað og var 31-24 yfir eftir fyrsta leikhluta, þótt Höttur hefði verið yfir stóran hluta leikhlutans. Hattarvörnin hélt betur í öðrum leikhluta, liðið jafnaði fljótt, komst yfir um miðjan leikhluta og var 47-49 yfir í hálfleik.

Höttur hélt síðan frumkvæðinu þótt munurinn væri aldrei mikill, mestur 58-66 rétt fyrir lok þriðja leikhluta en heimamönnum tókst að koma niður þriggja stiga skoti áður en leikhlutanum lauk.

Átta stiga forskotið komst á aftur í byrjun fjórða leikhluta sem gaf Hetti örlítið andrými fyrir lokaátökin. Hamar minnkaði muninn nokkrum sinnum í leikhlutanum niður í tvö stig en tókst aldrei að jafna og Höttur vann leikinn með fimm stigum.

„Mér fannst vil heilt yfir spila leikinn vel. Ég hefði viljað að við kláruðum hann aðeins betur en við vorum í bílstjórasætinu mest allan seinni hálfleikinn.

Við fengum á okkur of mörg stig í fyrsta leikhluta en eftir það komst jafnvægi á leikinn og við stjórnuðum hraðanum,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Höttur, Hamar og Breiðablik hafa öll tapað einum leik í deildinni til þessa en Höttur hefur spilað níu leiki gegn átta leikjum hinna og hefur því tveggja stiga forskot. Höttur situr hins vegar hjá í umferð helgarinnar en mætir Sindra á Höfn eftir tíu daga.

„Deildin virðist vera að skiptast í nokkra hluta. Við, Hamar og Breiðablik höfum slitið okkur frá hinum. Leikir þessara liða innbyrðis verða mikilvægir innbyrðis. Við eigum hins vegar þrjá leiki eftir til jóla og verðum að klára þá,“ segir Viðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.