Körfubolti: Höttur í fjórðungsúrslit í annað skiptið

Karlalið Hattar í körfuknattleik tryggði sér á mánudagskvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í annað skiptið í sögu félagsins þegar liðið lagði Selfoss á útivelli.

Líkurnar voru með Hetti fyrir leikinn en liðið spilar í úrvalsdeild en Selfoss í þeirri fyrstu. Það var samt heimaliðið sem fór betur af stað, komst í 16-6 sem Höttur minnkaði niður í 22-21 fyrir lok fyrsta leikhluta.

Selfyssingar skoruðu fyrstu níu stigin í öðrum leikhluta og komust í 31-21 en eftir það fór Höttur að snúa leiknum við, komst yfir um miðjan leikhlutann og var yfir 43-45 í hálfleik.

Tökin voru örugg á leiknum í seinni hálfleik. Höttur leiddi 61-72 eftir þriðja leikhluta og vann leikinn 83-92. Stigahæstur var David Guardia með 25 stig en Tim Guers skoraði 16 og Obie Trotter 15. Dregið verður í átta liða úrslitin á mánudag.

Hagur Hattar í úrvalsdeildinni hefur vænkast nokkuð. Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum vann Höttur næstu tvo, gegn Þór Þorlákshöfn og Tindastóli. Liðið leikur á morgun gegn KR í Reykjavík en síðan tekur við landsleikjahlé.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar