Körfubolti: Höttur í seilingarfjarlægð frá úrslitakeppninni
Höttur er hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 93-68 sigur á Haukum á Egilsstöðum í gærkvöld.Eins og lokatölurnar bera með sér þá var Höttur mun betra liðið í gærkvöldi. Það tók þó fyrsta kortérið fyrir liðið að komast í gang og útilokun eins leikmanns. Liðin hittu illa í byrjun en Höttur náði yfirhöndinni og var yfir 19-17 eftir fyrsta leikhluta.
Haukar komust yfir með að skora fyrstu sjö stigin í öðrum leikhluta. Þá varð eða urðu atvik sem virtust venda leiknum. Bæði lið höfðu verið að tuða í dómurunum, sem virtust jafn einbeitingarlausir og liðin í byrjun og þegar Matej Karlovic lét heyra í sér var komið nóg og dæmd á hann tæknivilla.
Mínútu síðar var Karlovic aftur á ferðinni, bakkandi inn í varnarmann Hauka. Karlovic vann villuna en í stað þess að snúa sér að því að halda leiknum áfram óð hann að einum dómaranum með eldræðu. Félagi hans brást við og gaf Karlovic hans aðra tæknivillu og þar með útilokun frá leiknum.
Liðsheildin býr til ótrúlega hluti
Eftir þetta virtist færast aukinn kraftur í leik Hattar og þegar á leið leikhlutann tóku skotin að rata ofan í þannig að í hálfleik var staðan orðin 45-36. Höttur tók aðra góða rispu snemma í þriðja leikhluta og kom muninum í 20 stig.
Sá munur hélst stöðugur út leikinn. Höttur spilaði frábæra vörn, stal boltanum og hirti fráköst meðan Haukaliðið brotnaði og tók vondar ákvarðanir í sókninni. Eftir þriðja leikhluta var staðan 73-54 og lokatölurnar 93-68.
„Fyrst og fremst þá settum við saman góðar 40 mínútur. Varnarleikurinn var mjög góðir og þar áttu allir sitt framlag. Menn sinntu sínum hlutverkum og gerðu vel sem liðsheild. Við erum ekki með bestu leikmennina í deildinni, eins og ég hef áður japlast á, en liðsheildin og samstaðan í að spila sem lið getur búið til ótrúlega hluti. Það erum við að reyna að gera,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.
Adam Eiður Ásgeirsson var stigahæstur með 24 stig. Obie Trotter skoraði 19 stig, tók 6 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal sex boltum.
Hvernig kemst Höttur í úrslitakeppnina?
Höttur er enn í 8. sæti deildarinnar, því síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Eftir leikinn í gær er liðið hins vegar komið með tveggja stiga forskot á Stjörnuna og er yfir í innbyrðisviðureignum. Stjarnan þyrfti því að vinna báða leikina sem liðið á eftir, gegn Grindavík og Breiðabliki, til að slá Hött út.
Höttur er líka orðið jafnt Tindastóli að stigum en Tindastóll hefur forskotið í innbyrðisviðureignum. Liðin mætast á Egilsstöðum eftir tvær vikur. Þar tveimur stigum fyrir ofan er Álftanes en lokaleikur Hattar í deildinni í ár verður gegn því.
Mynd: Daníel Cekic