Körfubolti: Höttur jafnaði metin í einvíginu við Hamar - Myndir
Höttur jafnaði metin við Hamar í leikjum liðanna um laust sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með 97-89 sigri á Egilsstöðum í gærkvöldi. Hamar vann fyrsta leik liðanna í Hveragerði á fimmtudagskvöld. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki mætir annað hvort Fjölni eða Vestra í úrslitarimmu um laust sæti.Það segir sitt um hve leikurinn í gærkvöldi var jafn að liðin skiptust tíu sinnum á forustunni. Höttur byrjaði betur en Hamarsliðið kom til baka og var yfir að loknum fyrsta leikhluta 26-27.
Gestirnir skoruðu fyrstu fjögur stigin í öðrum leikhluta en þá kom frábær kafli Hattar. Liðið keyrði grimmt og af miklum hraða á vörn Hamars með Bandaríkjamanninn Charles Clark fremstan.
Með eldsnöggum stefnubreytingum átti hann til að senda tvo varnarmenn undir körfunni í aðra átt til að skora. Þegar varnarmenn Hamars fóru í rétta átt brutu þeir gjarnan á honum þannig þeir söfnuðu villum. Höttur komst mest í 50-40 forustu en í hálfleik var staðan 55-52.
Clark og Huges út til skiptis
Clark náði sér í tvær villur með 20 sekúndna millibili í byrjun þriðja leikhluta, fyrst fyrir brot í vörninni, svo fyrir ruðning og var því geymdur á bekknum nær allan leikhlutann. Hamar jafnaði því leikinn fljótt og komst yfir 62-64.
Hattarmenn náðu tökum á leiknum á ný með skynsamri spilamennsku. Vörnin var þétt og í sókninni gekk boltinn vel sem opnaði færi fyrir miðherjann Andrée Huges auk þess sem aðrir leikmenn Hattar skiptust á að skora mikilvægar körfur sem færðu heimaliðinu 77-72 forskot fyrir lokaleikhlutann.
Þar herti Höttur tökin jafnt og þétt. Clark kom inn á ný en Huges fór út af meiddur. Kraftur gestanna virtist þverra sem braust út í pirringi í blálokin þegar þeirra fengu bæði á sig óíþróttamannslega villu fyrir brot og tæknivillu fyrir mótmæli þjálfara, þegar mistök á ritaraborði gáfu til kynna að einn leikmanna Hattar væri kominn í fimm villur. Helsta von þeirra var Everage Lee Richardson, sem skoraði þegar hann fékk pláss til að skjóta enda varð hann stigahæstur Hamarsmanna með 24 stig.
Hjá Hetti skoraði Huges mest, 24 stig auk þess að hirða 13 fráköst. Clark skorað 23 stig, Eysteinn Bjarni Ævarsson skoraði 19 og Dino Stipcic skoraði 16 auk þess að taka 10 fráköst.
Áttum meira eftir
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður með hvernig liðið hélt út á lokamínútunum. „Bæði lið voru orðin orkulítil því þau höfðu lagt mikið í leikinn en mér fannst við eiga heldur meira eftir. Það sýndi styrk hvernig við spiluðum og kláruðum leikinn í lokin. Heilt yfir spiluðum við vel í dag,“ sagði Viðar.
Hann var einnig ánægður með hvernig liðið leysti þá stöðu sem kom upp þegar Clark fékk sína fjórðu villu. „Hann fékk tvær óþarfa villur svo við þurftum að skipta honum út af. Ég er ánægður með hvernig aðrir stigu upp og hann kom síðan sterkur inn á í lokin og kláraði leikinn fyrir okkur sóknarlega. Það sýnir okkar styrk að við getum verið með hann af gólfinu í einhvern tíma. Við spilum okkar leik saman, fimm á velli og tólf í hóp.“
Hann sagðist eiga von á að Huges yrði klár í þriðja leikinn í Hveragerði á miðvikudag. „Hann fékk krampa og fer núna til sjúkraþjálfara.“