Körfubolti: Höttur jafnaði stöðuna í einvíginu gegn Val – Myndir
Höttur jafnaði stöðu sína í einvíginu gegn Val, í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik, þegar liðið vann annan leik liðanna á Egilsstöðum 84-77. Höttur var yfir allan tímann og sýndi mikla baráttu.Eftir að Valur skoraði fyrstu körfu leiksins setti Höttur ellefu stig í röð þannig að strax eftir rúmlega þriggja mínútna leik hafði Valur tekið fyrsta leikhlé leikins. Það var einkennandi fyrir baráttu Hattar að liðið hafði þarna tekið sjö fráköst gegn einu.
Íþróttahúsið á Egilsstöðum var þéttskipað, enda höfðu verið smíðaðir pallar til að koma fyrir áhorfendum aftan við körfurnar. Hátt í 800 manns mættu á leikinn sem mun vera sá fjölsóttasti síðan Höttur fór fyrst upp í úrvalsdeildina í körfu vorið 2005. Liðið vann þá Val í tveimur leikjum í úrslitum fyrstu deildar og var sá seinni á Egilsstöðum. Lætin í áhorfendum smituðust á jákvæðan hátt út í Hattarliðið.
Eftir fyrsta leikhluta var Höttur 28-21 yfir og 50-36 í hálfleik. Höttur spilaði góða vörn á sama tíma og skyttur Vals voru kaldar, eins og 26% nýting þeirra utan þriggja stiga línunnar ber vott um. Höttur hélt sig á móti í um 50% nýtingu úr teignum allan leikinn og í kringum 30% úr langskotunum.
Tuttugu stiga forusta
Höttur hélt siglingu sinni áfram og var um miðjan þriðja leikhluta komið með um 20 stiga forskot. Valsmenn náðu að laga stöðuna lítillega í lokin. Miðherjinn Nemanja Knezevic var þá hvíldur þannig gestirnir áttu betri möguleika á að ná fráköstum. Höttur var þó 68-51 yfir eftir þriðja leikhluta.
Höttur hélt forskotinu í um 20 stigum þar til um fjórar mínútur voru eftir. Valur tók þá áhlaup og helmingaði forskotið úr 18 stigum í níu. Höttur tók leikhlé og náði eftir það að spila sig í gegnum pressuvörn gestanna, sem hafði hleypt leiknum upp. Þar með náði Höttur að klára leikinn. Deontaye Buskey var stigahæstur Hattar með 23 stig, Gustav Suhr-Jessen skoraði 14 og Matej Karlovic 13.
Þotuliðið
Til viðbótar við frábær úrslit og stemmingu munu stuðningsmenn Hattar geta skemmt sér í einhvern tíma yfir óförum Vals á leiðinni. Mistök urðu þegar flug liðsins var bókað þannig að það átti ekkert bókað austur í gær, heldur síðar í vikunni. Það uppgötvaðist ekki fyrr en liðið var mætt á Reykjavíkurflugvöll. Lausnin var að þota Icelandair, á leið austur að sækja starfsfólk Landsvirkjunar á árshátíð, tók liðið með.
Varnarleikurinn til fyrirmyndar
„Varnarleikurinn var til fyrirmyndar. Við gáfum lítið af auðveldum körfum, sem við gerðum of mikið af síðast. Sóknarlega náðum við að hreyfa þá betur og opna fyrir betri skot. Við fengum auðveldar körfur í kvöld en þær voru engar í síðasta leik. Við gerðum þessa litlu hluti vel í kvöld og þeir gengu upp,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.
Liðin hafa nú unnið sinn leikinn hvort. Þau mætast næst í Valsheimilinu á fimmtudagskvöld klukkan 19:00 og síðan aftur á Egilsstöðum mánudaginn 22. apríl. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í undanúrslit.