Körfubolti: Höttur kominn með tvo sigra á Fjölni
Höttur hefur unnið báða fyrstu leikina gegn Fjölni í undanúrslitum fyrstu deildar karla í körfuknattleik. Mikið var skorað í öðrum leiknum, líkt og þeim fyrri.Höttur vann með einu stigi á Egilsstöðum á föstudagskvöld en hafði mun betri tök á leiknum þegar liðin mættust í Grafarvogi í gærkvöldi.
Í fyrsta leikhluta var staðan jöfn 16-16 þegar við tók góður kafli Hattar sem breytti henni í 17-26 og var síðan yfir 23-31 eftir leikhlutann.
Snemma í öðrum leikhluta jafnaði Fjölnir í 33-33 en Höttur skoraði þá sex stig í röð og var síðan 49-59 yfir í hálfleik.
Fjölnir skoraði ekki fyrstu tvær mínúturnar í seinni hálfleik meðan Höttur setti tíu stig. Munurinn var þar með orðinn 20 stig, 49-69 og þá forustu náði Fjölnir aldrei að minnka að ráði. Eftir leikhlutann var staðan 72-95 og lokatölurnar 96-118.
Stigaskorun Hattar var nokkuð jöfn í gærkvöldi. Þeir David Guardia og Matej Karlovic skoruðu þó mest, 24 stig hvor.
Liðin mætast aftur á Egilsstöðum á fimtmudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í úrslit og sigurvegarinn þar í úrvalsdeildina. Í hinum undanúrslitum jafnaði Álftanes einvígi sitt gegn Sindra með 81-76 sigri á Álftanesi í gær.