Körfubolti: Höttur kominn upp í úrslitakeppnissæti

Hattarmenn unnu í gær góðan útisigur á liði Þórs í Þorlákshöfn í Subway-deild karla í körfubolta. Í leikslok munaði þremur stigum á liðunum, 89-92 urðu lokatölur. Með sigrinum komst liðið upp í úrslitakeppnissæti.

Þór sat fyrir leikinn í þriðja sæti deildarinna en Höttur var í því níunda. Með sigrinum fór Höttur upp í sjöunda sæti í deildinni með 16 stig, og upp fyrir bæði Tindastól og Stjörnuna. Síðarnefnda liðið situr í áttunda sæti, einnig með 16 stig, en á hins vegar leik til góða í kvöld. Sjö leikir eru eftir af deildarkeppninni en að henni lokinni tekur úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn við. Í hana komast liðin sem enda í átta efstu sætum deildarinnar. Því var sigurinn í gær afar mikilvægur Hattarmönnum sem með honum komust í úrslitakeppnissæti. Þá komst liðið aftur á sigurbraut en liðið tapaði í síðustu umferð fyrir Njarðvíkingum á Egilsstöðum.

Óveður á höfuðborgarsvæðinu tilheyrandi umferðartöfum olli því að leiknum í gær var seinkað um 45 mínútur. Það tók það Hattarmenn drjúgan tíma að komast til Þorlákshafnar frá Reykjavík en þangað flaug liðið í fyrrakvöld. Það var hins vegar ekki við Hattarmenn að sakast að leikurinn tafðist heldur voru það dómararnir sem sátu fastir í umferðinni.

Hattarmenn byrjuðu leikinn af krafti, þriggja stiga skotunum rigndi og eftir fyrsta leikhluta var liðið tíu stigum yfir. Þeir bættu við forystuna í öðrum leikhluta og fóru inn í hálfleik með tólf stiga forskot, 45-57.

Heimamenn í Þorlákshöfn lögðu þó ekki árar í bát og söxuðu verulega á forystu Hattarmanna í þriðja leikhluta. Að honum loknum leiddi Höttur aðeins með þremur stigum og allt gat gerst í lokaleikhlutanum. Hart var barist í honum og Þórsarar gerðu fjölda tilraun til að jafna leikinn. Forysta Hattar hélt hins vegar og þeir höfðu að lokum sætan þriggja stiga sigur.

Nemanja Knezevic endaði stigahæstur Hattarmanna með 20 stig og tók auk þess 14 fráköst, sannkölluð tröllatvenna hjá honum. Adam Ásgeirsson skoraði þá 16 stig í leiknum. Annars dreifðist stigaskor Hattarmanna vel og skoruðu sex leikmenn tíu stig eða meira í gærkvöldi.

Næsti leikur Hattar í deildinni er næstkomandi fimmtudagskvöld, þegar Hamar frá Hveragerði kemur í heimsókn austur. Hamarsmenn sitja á botni deildarinnar án stiga og því má ætla að um skyldusigur Hattar sé að ræða. Hins vegar er ekki ólíklegt að Hamarsmenn mæti til leiks með blóð á tönnunum enda töpuðu þeir afar naumlega í gær fyrir Haukum, aðeins með eins stigs mun. Piltarnir hans Viðars Arnar þjálfara þurfa því að mæta fullir einbeitingar til leiks í næstu viku.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.