Körfubolti: Höttur marði Breiðablik

Höttur vann sinn annan leik í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið hafði betur 80-73 gegn Breiðabliki á Egilsstöðum í gær. Leikurinn var ekki áferðafallegur en Höttur marði sigurinn fyrir rest.

Höttur fór töluvert betur af stað, hitti vel úr þriggja stiga skotum og spilaði grimma vörn en fékk á sig slatta af villum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-17 en miðjan annan leikhluta var Höttur farinn að ná yfir tíu stiga forustu og virtist líklegur til að sigla áfram.

Þá hrökk allt í baklás í sóknarleiknum og síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik skoraði liðið fjögur stig. Ekki hægt að segja að Blikar hafi hitt vel en þó skár en Höttur. Munurinn minnkaði niður í fimm stig áður en flautað var til hálfleiks.

Hnoðið hélt áfram í þriðja leikhluta. Breiðablik minnkaði muninn og komst yfir eftir sjö mínútur, 47-49, hafandi þá skorað fjögur stig í röð. Loks færðist eitthvert fjör og hraði í leikinn á lokasekúndunum. Deontaye Buskey hljóp þá tvisvar uppi sóknir Blika og stöðvaði þær, fyrst með að vera skot en síðar með broti. Hann fékk á sig villu en ekki vítaskot. En Höttur klúðraði sókninni sem liðið fékk á milli og staðan 53-54 eftir þriðja leikhluta.

Stigi undir keyrði Höttur upp hraðann í byrjun fjórða leikhluta. Buskey komst loks í gang, skoraði átta af fyrstu tíu stigum Hattar í leikhlutanum. Þar með komst liðið yfir, 63-62. Breiðablik komst aftur yfir en eftir þriggja stiga körfu frá Obie Trotter var Höttur kominn í tveggja stiga forustu.

Vendipunktur var í sérstöku atviki þar sem Buskey ætlaði að troða gapandi frír undir körfunni. Hann misreiknaði sig og boltinn spýttist upp úr körfunni. Buskey lenti hins vegar illa og þurfti að fara út af meiddur.

Staðan var þá 73-71 og þrjár mínútur eftir. En Höttur setti upp skot fyrir Obie Trotter sem smellti niður þriggja stiga körfu. Þar með var Höttur aftur kominn í fimm stiga forustu, 76-71. Á þeirri forustu tókst Hetti í raun að hanga til loka.

„Við byrjuðum af krafti en urðum síðan kærulausir, hægir og varnaleikurinn lélegur. Þar buðum við hættunni heim. Undir lokin náðum við smá áhlaupi og komumst aftur í takt. Ég er vonsvikinn með frammistöðu okkar í dag, hún var ekki góð. En kannski er það þroskamerki á liðinu og félaginu að vinna leik þótt frammistaðan sé þetta slök,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Höttur hefur þá unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni. „Byrjunin gæti ekki verið betri og við verðum að fagna því. Ég er ekki leiður þótt það þurfi að laga frammistöðuna.“

Buskey og Karlovic voru stigahæstir hjá Hetti í gær, skoruðu sextán hvor.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.