Körfubolti: Höttur marði Sindra eftir framlengingu

Höttur vann Sindra 105-103 eftir framlengdan leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Með sigrinum komst Höttur aftur upp að hlið Hauka í efsta sætinu.

Höttur var yfir, 21-17 eftir fyrsta leikhluta og 45-42 í hálfleik. Munurinn var aldrei mikill, yfirleitt ígildi einnar sóknar á hvorn veginn því leikurinn sveiflaðist í báðar áttir. Það segir sína sögu að liðin skiptust fimmtán sinnum á forustunni og þrettán sinnum var jafnt.

Besti kafli Sindra kom um miðjan þriðja leikhluta. Eftir að Höttur hafði verið 57-54 yfir skoruðu gestirnir tíu stig í röð. Hetti tókst hins vegar að minnka muninn niður í 66-69 fyrir fjórða leikhluta.

Þar þróuðust hlutirnir með svipuðum hætti og fyrr. Þegar þrettán sekúndur voru eftir jafnaði Arturo Rodriguez fyrir Hött í 93-93. Sindri fékk sókn en Tim Guers varði skot Detrek Browning.

Því varð að framlengja. Nokkuð framorðið var þegar úrslit fengust loks, en upphafi leiksins seinkaði um klukkutíma þar sem áætlunarflugið austur úr Reykjavík tafðist, en með því komu dómararnir.

Höttur var alltaf á undan að skora í framlengingunni en Sindri jafnaði jafn harðan. Hornfirðingar fengu tækifæri til að komast yfir í stöðunni 103-103 þegar 11 sekúndur voru eftir en Jordan Connors, þeirra stigahæsti maður, brenndi af báðum vítaskotum sínum.

Höttur fór í sókn og fékk tvö vítaskot sem Arturo setti niður. Það síðara fór í gegnum körfuna þegar tvær sekúndur voru eftir sem reyndust Hornfirðingum ekki nægur tími til að svara fyrir sig.

Arturo var stigahæstur hjá Hetti með 31 stig. Juan Luis átti góðan dag, skoraði 19 stig og hirti 15 fráköst, þar af 8 sóknarfráköst.

Með sigrinum hefur Höttur aftur náð Haukum á toppi deildarinnar, bæði lið hafa 24 stig úr 14 leikjum. Á eftir kemur Álftanes með 22 stig úr 15 leikjum og síðan Fjölnir með 20 stig úr 16 leikjum. Höttur heimsækir einmitt Fjölni á föstudag, í byrjun viku þar sem liðið leikur þrjá leiki en verið er að vinna upp raskanir á deildinni vegna Covid-faraldursins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.