Körfubolti: Höttur örugglega áfram í aðra umferð bikarsins

Höttur tryggði sér í gær sæti í annarri umferð bikarkeppni karla í körfuknattleik með stórsigri, 54-107, á Snæfelli í Stykkishólmi. Liðið tapaði hins vegar illa fyrir Njarðvík í úrvalsdeildinni á föstudagskvöld.

Höttur hafði mikla yfirburði í gær enda Snæfell deild neðar. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 12-17, 25-59 í hálfleik, 42-80 eftir annan leikhluta og loks 54-107 í lokin.

Leikmenn sem fengið hafa færri mínútur í vetur spiluðu ágætis hlutverk í gær og voru nær allir þeir leikmenn Hattar sem eitthvað léku með minnst 10 mínútur. Þess vegna dreifðist stigaskorið. David Guardia Ramos skoraði 15 stig og þeir Nemanja Knezevic og Sæþór Elmar Kristjánsson 14 hvor.

Heldur verr fór í leiknum gegn Njarðvík í úrvalsdeildinni á föstudagskvöld. Leikurinn átti upphaflega að vera leikinn á fimmtudag en var frestað um sólarhring vegna hvassviðris sem lamaði allt innanlandsflug.

Höttur var yfir 4-8 en þá hrökk allt í baklás því heimaliðið komst í 17-8. Ekkert gekk í vörn Hattar því Njarðvík skoraði yfir 30 stig í fyrsta leikhluta, leiddi eftir hann 32-15.

Í hálfleik var staðan 58-38, 81-57 eftir þriðja leikhluta og 107-71 í lokin. Eins og í gær dreifðist spilatíminn nokkuð. Obi Trotter var stigahæstur með 18 stig en þeir Adam Eiður Ásgeirsson og Gustav Suhr-Jessen 13.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.