Körfubolti: Höttur situr einn að toppsætinu
Höttur situr einn að efsta sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir 70-87 sigur á Fjölni sem verið hefur í öðru sæti í vetur í Grafarvogi á föstudagskvöld. Höttur hafði yfirburði í leiknum.
Eina jafna staðan í leiknum var 0-0. Ragnar Gerald Albertsson breytti henni í 0-3 í fyrstu sókn Hattar og fljótlega var staðan orðin 0-7. Fjölnir minnkaði muninn í 12-14 en komst aldrei nær.
Höttur var 36-47 yfir í hálfleik en mestur varð munurinn 45-70 um miðjan þriðja leikhluta. Aaron Moss var stigahæstur með 31 stig auk þess að taka 14 fráköst. Ragnar skoraði 18 stig og Mirko Virijevic 17.
„Við vorum drulluflottir og þéttir í dag. Varnarleikurinn var mjög góður og við gerðum það sem við lögðum upp með. Bæði lið voru flöt á köflum en við komum alltaf með körfur þegar þurfti,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í samtali við karfan.is eftir leikinn.
Þjálfari Fjölnis sagði á móti að eftir leikinn væri fyrsta sætið Hattar. Fjölnir myndi einbeita sér að úrslitakeppninni.
Höttur hefur aðeins tapað einum leik í vetur, gegn Val á útivelli og hefur núna fjögurra stiga forskot á Fjölni og sex á Val, sem á leik til góða. Valsmenn koma austur eftir tvær vikur og liðin mætast aftur í næst síðustu umferðinni í mars. Höttur er búinn með 16 af 24 leikjum sínum en leikin er þreföld umferð.