Körfubolti: Höttur þarf í oddaleik
Höttur og Hamar mætast í oddaleik í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik í Hveragerði á morgun. Hamar knúði leikinn fram með sigri á Egilsstöðum á laugardag. Tímabilinu er lokið hjá aðalliðum Þróttar í blaki.Höttur byrjaði leikinn betur og var 49-40 yfir í hálfleik. Gestirnir tóku sig saman í hálfleik, spiluðu mun ákafari varnarleik á sama tíma og bæði sóknarleikur Hattar varð stirðari og varnarleikurinn óskipulagðari.
Þá má minnast á grimmd gestanna í fráköstum, þeir hirtu 51 slíkt gegn 31 Hattar í leiknum.
Hetti hafði tekist að halda Bandaríkjamanninum Everage Lee Richardson niðri í fyrri hálfleik en hann virtist geta hitt hvenær sem er í þriðja leikhluta þar sem lið hans skoraði 30 stig og komst yfir 67-70.
Höttur fékk sín færi í fjórða leikhluta, sennilega ekkert betra en í stöðunni 70-73 þar sem þriggja stiga skot hreinlega snérist upp úr körfunni, Hamarsmenn hirtu frákastið og brunuðu upp í sókn og skoruðu. Í stað þess að jafna var Höttur því orðinn fimm stigum undir. Hamar hékk á þessu forskoti og vann 83-89.
Urðum litlir við mótspyrnuna
„Við hreyfðum boltann vel í sókninni í fyrri hálfleik og unnum eins og við lögðum upp með í vörninni en Hamar kom með mikinn kraft inn í seinni hálfleikinn. Um leið og við fengum mótspyrnu urðum við litlir, hörfuðum og fórum út úr því sem við hefðum ætlað að gera.
Það er aldrei gott ef menn ætla að fara í eitthvert einstaklingsbull. Þá fer eins og fór. Í lokin var hins vegar jafnt og þetta var stöngin inn, stöngin út.“
Liðin mætast í oddaleik í Hveragerði annað kvöld. Sigurvegarinn þar mætir Fjölni í úrslitaeinvígi um sæti í úrvalsdeild að ári. „Við þurfum að hlaða batteríin, þenja kassann út og gera okkur klára.“
Komust ekki í úrstlitakeppnina
Aðallið Þróttar í blaki luku keppni fyrir helgi eftir erfitt tímabil, en þau fóru bæði í úrslitakeppni um laust sæti í úrslitakeppninni.
Kvennaliðið tapaði móti Völsungi 0-3 á Húsavík. Leikurinn var nokkuð jafn en Völsungur hafði alltaf forskot í hrinunum sem unnust 25-23, 25-20 og 25-22.
Karlaliðið tapaði móti Álftanesi. Heimaliðið vann fyrstu hrinuna örugglega 25-14 en þær seinni tvær voru jafnar og enduðu 25-23 og 27-25.