Körfubolti: Höttur tveimur stigum frá úrslitakeppninni

Hársbreidd munaði að Hetti tækist í gær að komast í úrslitakeppni Íslandsmót karla í körfuknattleik í fyrsta sinn en liðið tapaði fyrir ÍR, sem var fallið, með einu stigi á heimavelli, 79-80. Nýting Hattar af vítalínunni reyndist liðinu dýrkeypt.

Höttur fór betur af stað, náði 10 stiga forskoti í fyrsta leikhluta, 22-12 en ÍR skoraði síðustu sjö stigin og minnkaði muninn í 22-19 áður en leikhlutanum lauk. ÍR hélt áfram á sömu braut, komst yfir fljótlega í öðrum leikhluta og leiddi í hálfleik, 33-35.

Leikurinn var áfram jafn í þriðja leikhluta, að honum loknum var staðan 58-58. Í fjórða leikhluta var Höttur ávallt skrefinu á undan en aldrei þannig að forustan gæti talist örugg, eins og kom á daginn.

ÍR jafnaði í 76-76 og aftur í 78-78 þegar tvær mínútur voru eftir. Höttur klúðraði skoti og ÍR fékk tvö víti sem Taylor Johns setti bæði niður. Johns átti góðan leik, skoraði 21 stig og tók 18 fráköst.

Þriggja stiga skot Obie Trotter í næstu sókn geigaði en hann bætti upp fyrir það með að stela boltanum og fá dæmd vítaskot. Aðeins annað þeirra fór ofan í, sem var kannski einkennandi fyrir hittni Hattar af vítalínunni því liðið hitti úr 4 af 10 vítum.

Það reyndist dýrkeypt. Þótt Obie næði boltanum eftir seinna vítið geigaði tilraun hans og ÍR fékk boltann með 35 sekúndur eftir. Aftur stálu Hattarmenn boltanum, að þessu sinni Bryan Alberts. Hann reyndi þriggja stiga skot sem geigaði.

ÍR fór því í aðra sókn með 25 sekúndur eftir og að þessu sinni brutu Hattarmenn af sér. Johns fór á vítalínuna en klikkaði á báðum skotum. Höttur fékk því boltann þegar 14 sekúndur voru eftir en náði ekki skoti. Tim Guers var stigahæstur í gær með 21 stig en Nemanja Knezevic skoraði 17.

Liðið var fyrir gærkvöldið jafnt Stjörnunni að stigum en stóð betur í innbyrðisviðureignum. Sigur í leiknum hefði þýtt að liðið hefði farið í úrslitakeppnina. Stjarnan vann hins vegar sinn leik og í staðinn er tímabilinu lokið en liðinu hefur í fimmtu tilraun í fyrsta sinn tekist að halda sér í úrvalsdeildinni.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar