Körfubolti: Höttur úr leik í bikarnum
Höttur er úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 65-118 ósigur gegn Keflavík í 32ja liða úrslitum í gærkvöldi.Það hafði sitt að segja að flestu erlendu leikmennina vantaði hjá Hetti. Aðeins þeir David Guardia og Juan Luis spiluðu í gærkvöldi og aðeins rúmar 20 mínútur hvor. David varð stigahæstur Hattarmanna með 13 stig. Þeir Arturo Fernandez, Matej Karlovic og Timothy Guers eru ekki komnir.
Keflvíkingar voru hins vegar með öflugt lið, meðal annars miðherjann öfluga Dominykas Milka og David Okeke sem setti niður 29 stig auk þess að taka tólf fráköst.
Í fjarveru væntanlegra lykilmanna fengu yngri leikmenn Hattar. Þeirra mest spilaði Sævar Elí Jóhannsson, rúmar 16 mínútur. Hann fór ágætlega af stað og skoraði 5 stig strax í fyrsta leikhluta. Þá spiluðu tveir nýir leikmenn, Jóhann Gunnar Einarsson og Adam Eiður Ásgeirsson sem komu úr Njarðvík, með liðinu en Adam Eiður barðist vel á köflum.
Það þarf því ekki að koma á óvart þótt gestirnir væru með undirtökin í leiknum en þeir voru 19-31 yfir eftir fyrsta leikhluta og 33-56 yfir í hálfleik.
Auðsýnt var á leiknum að enn er mánuður í Íslandsmótið. Liðin sóttu en vörðust illa og talsvert var um mistök. Hattarliðinu gekk ágætlega að opna skotfæri en nýtt þau illa.
Þess vegna sigldi Keflavík sinn sjó, var 45-86 yfir eftir þriðja leikhluta og vann að lokum sem fyrr segir með tæpum 50 stigum.