Körfubolti: Höttur vann KR

Höttur vann KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld, 72-83. Hattarliðið var með KR í greipum sér allt frá þriðju mínútu leiksins.

KR skoraði fyrstu fjögur stig leiksins en það breytti því ekki að Höttur var kominn yfir, 6-7 eftir þrjár mínútur. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 17-21.

Sinni mestu forustu í leiknum náði Höttur um miðjan annan leikhluta, var þá 12 stigum yfir, 24-38. KR minnkaði muninn hins vegar áður fyrir leikhlé niður í 34-40. Sá munur hélst í gegnum þriðja leikhluta en staðan að honum loknum var 58-64.

Snemma í lokafjórðungi minnkaði KR muninn niður í 65-66. Aldrei varð þó jafnt, hvað þá að KR kæmist yfir heldur var allur vindur úr liðinu skömmu síðar. Höttur skoraði þá níu stig í röð og breytti stöðunni úr 67-69 í 67-78. Lokatölurnar urðu sem fyrr segir 72-83.

Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 16 stig og Obie Trotter, sem nú er að vakna til lífsins í stigaskorun eftir að hafa farið hægt af stað, skoraði 14. Nemanja Knezevic skoraði 10 stig og tók 12 fráköst.

Hlé verður nú á deildinni vegna landsleikja og eru því tvær vikur í næsta leik Hattar, gegn Stjörnunni á heimavelli. Liðið er jafnt fjórum öðrum í 4. – 7. sæti með sex stig. Höttur hefur unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem liðið er með jákvætt vinningshlutfall í úrvalsdeildinni auk þess sem liðið hafði ekki áður unnið KR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.