Körfubolti: Mikil spenna og eftirvænting fyrir fyrsta leik

Körfuknattleikslið Hattar spilar sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á þessari leiktíð í kvöld. Þjálfari liðsins segir stefnuna setta á úrslitakeppnina.

Höttur spilar nú í fimmta sinn í úrvalsdeildinni en í hin fjögur skiptin hefur það fallið strax aftur. Í kvöld mætir það Haukum en liðin fóru saman upp úr fyrstu deildinni í vor.

„Haukaliðið er mjög gott og hefur bætt mikið við sig frá í fyrra, er nánast með nýtt lið. Við höfum frekar byggt ofan á það sem við vorum með þá. Bæði kvöldið og leiktíðin leggst mjög vel í okkur. Það er mikil stemming og eftirvænting í hópnum,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Í árlegum spám hefur liðinu verið spáð falli en Viðar Örn gefur lítið fyrir þær spár. „Við stefnum á að fara í úrslitakeppnina.“

Fjórir leikmenn bætast við frá í fyrra, tveir alveg nýir en tveir kunnuglegir. Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar er kominn aftur austur eftir að hafa verið í Íslandsmeistaraliðið Þórs Þorlákshafnar fyrir tveimur árum. Gísli Hallsson kemur aftur frá Sindra en hann spilaði með Hetti 2015-18. Miðherjinn Nemanja Knezevic kemur frá Vestra á Ísafirði þar sem hann hefur leikið undanfarin fimm ár auk þess sem Höttur fékk til sín reynslumikinn leikstjórnanda, Obie Trotter.

Þeir Brynjar Snær Grétarsson og Sævar Elí Jóhannsson eru farnir af svæðinu í nám og verða því ekki með í vetur. Arturo Fernandez er genginn til liðs við Fjölni og Matija Jokic hefur yfirgefið félagið

„Við höfum bætt við okkur bæði hæð og reynslu. Liðið vel vel samsett, við teljum þetta öflugasta hóp sem félagið hefur teflt fram. Í því er mikil reynsla og hlutverkaskipanin skýr frá byrjun. Við erum ánægð með ganginn á undirbúningstímabilinu og teljum liðið tilbúið.“

Leikurinn hefst klukkan 18:15 í íþróttahúsinu að Ásvöllum í Hafnarfirði. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og safnast stuðningsfólk Hattar meðal annars saman í Tehúsinu á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.