Körfubolti: Naumt tap gegn Val

Höttur tapaði sínum fyrsta leik í Domino‘s deild karla að loknu mánaðarhléi vegna samkomutakmarkanna 91-95 gegn Val í gærkvöldi þegar liðin mættust á Egilsstöðum.

Höttur spilaði leikinn vel og var yfir í 30 mínútur af þeim 40 sem leikurinn stóð yfir en var því miður ekki yfir á þeirri stund sem skipti mestu máli.

Forustan varð aldrei mikil, fór mest í um 10 stig, en heimaliðið var ávallt skrefinu framar. Rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka þegar Valur komst yfir í fyrsta sinn frá því í upphafi leiksins.

Í viðtali eftir leikinn sagðist Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, að hann væri sáttur við frammistöðuna en liðið hefði í seinni hálfleik ráðið illa við Jordan Roland, leikmann Vals, sem skoraði á þeim kafla 33 stig.

Bandaríkjamaðurinn Michael Mallory átti góðan dag hjá Hetti og varð stigahæstur með 30 stig.

Höttur deilir botnsætinu með Haukum en bæði liðin eru með átta stig. Höttur á lykilleik gegn Njarðvík á útivelli á mánudag en Njarðvíkingar eru í næsta sæti fyrir ofan fallsætin tveimur stigum frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.