Körfubolti: Njarðvík öflugri á lokasprettinum

Höttur tapaði sínum öðrum leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í vetur þegar það beið lægri hlut gegn Njarðvík 86-91 á heimavelli í gærkvöldi. Seinni hálfleikur var jafn en Njarðvíkingar sigu fram úr síðustu mínútuna.

Njarðvík landaði sínum fyrsta sigri í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á leiktíðinni í kvöld þegar liðið lagði Höttur 86-91 á Egilsstöðum. Gestirnir sigu fram úr á lokasprettinum.

Njarðvík yfirspilaði Hött í fyrsta leikhluta, hitti vel og spilaði góða vörn sem ýtti Hattarmönnum út úr sínum sóknaraðgerðum. Þessi vörn skilaði líka hraðaupphlaupum og þar með auðveldum stigum. Mest varð forustan 17 stig, 11-28 þegar um tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Höttur barðist til baka og saxaði smátt og smátt á forskotið. Skotnýting Njarðvíkinga, sem hafði verið góð, féll úr 66% í 46% í öðrum leikhluta. Við það jafnaðist leikurinn og í hálfleik var nokkuð jafnt í flestri tölfræði, þar með talið stigunum, 39-41.

Höttur komst svo yfir í fyrstu sókn með fyrstu körfu þriðja leikhluta. Tim Guers, sem lítið náði að sína í fyrsta leikhluta, setti niður þriggja stiga körfu langt fyrir utan línuna. Í gegnum leikhlutann sveiflaðist forustan milli liðanna, uns hún var 63-62 eftir þriðja leikhluta.

Njarðvík komst í 69-76 eftir tvær þriggja stiga körfur frá Maciek Baginski eftir þriggja mínútna leik í fjórða leikhluta. Höttur svaraði með góðum kafla og var 80-76 yfir tveimur mínútum síðar. Þá kom fimm stiga sveifla þannig Njarðvík komst yfir 80-81 en næsta karfa á eftir var þriggja stiga frá Guers. En gestirnir reyndust sterkari á lokasprettinum, einkum Dedrick Basile. Hann keyrði ákveðið á Hattarvörnina, tókst að fá fimmtu villuna á Obie Trotter, sem hafði gætt hans allan leikinn og endaði með 28 stig.

Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig og Matej Karlovic skoraið 16. Vert er að minnast á þátt Nemanja Knezevic sem skoraði 11 stig, tók 10 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.

„Þetta var ekki nógu gott, við töpuðum. Það munar einu play-i hér og þar. Leikurinn verður erfiðari þegar við komum okkur í svona vandræði í byrjun en við gerðum vel í að koma til baka og síðan vantaði bara herslumuninn.

Það koma dýfur inn á milli, sérstaklega varnarlega. Þegar allt smellur sóknarlega getum við búið til körfur. Við vinnum áfram í þessu,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Næsti leikur Hattar er gegn Þór Þorlákshöfn í bikarnum á sunnudag. Leikið verður á Egilsstöðum.

Mynd: Hilmar Sigurbjörnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.